Föstudagur 5. september 2008

249. tbl. 12. árg.

Í gær minntist Vefþjóðviljinn á frétt Morgunblaðsins af auknum vinsældum vatnspípureykinga og gat þess að nú myndi forræðishyggjuliðið ærast og yrði fróðlegt að sjá hvernig blaðið brygðist við. Það þurfti ekki að bíða lengi. Þegar hefur birst í blaðinu bréf frá manni sem sagðist vart fá „með orðum lýst hversu hryggur og svekktur“ hann er vegna þessarar umfjöllunar blaðsins, en bréfritari segist vera áskrifandi að blaðinu og lesa það „með augum þeirrar þekkingar og reynslu sem [hann hefur] sem læknir og áhugamaður um forvarnir“.

Ritstjóri blaðsins svarar á sama stað og má eiga það að hann biðst ekki afsökunar og gefur ekki eftir rétt blaðsins til þessarar umfjöllunar. En svar hans er samt dæmigert að einu leyti. Ritstjórinn segir að Morgunblaðið hafi áratugum saman fjallað um skaðsemi reykinga „og m.a. beitt sér fyrir reykingabanni á opinberum stöðum. Það hefur hins vegar lagzt gegn tillögum, sem fram hafa komið á Alþingi um að banna alla umfjöllun fjölmiðla um tóbak nema hún sé sérstaklega ætluð til að vara við skaðsemi þess.“

Með öðrum orðum: Morgunblaðið stendur hart með eigin rétti til að fjalla um tóbak. En ef eitthvað fólk úti í bæ ætlar að framfleyta sér með því að reka veitingahús og leyfa þar reykingar, þá er Morgunblaðinu að mæta. Morgunblaðið vill frelsi til að skrifa eins og það vill. En í rekstri annarra, þá á gildismat Morgunblaðsins að ráða líka.

Ekki þarf að taka fram, að Vefþjóðviljinn er hlynntur rétti Morgunblaðsins til að fjalla um tóbak, jafnvel þó umfjöllunin svekki þá sem vilja ráðskast með lífsstíl annarra. En hann er jafn hlynntur rétti húseiganda til að setja húsreglur, jafnvel þó þær svekki reyklausa blaðamenn sem vilja ráðskast með lífsstíl annarra.

F rá því var oft sagt í fréttum í gær að svo mikils stuðnings nytu ljósmæður í kjarabaráttu sinni að jafnvel formaður heilbrigðisnefndar alþingis hefði við þingumræður sagt að „leiðrétta“ ætti laun þeirra. Hvernig getur hver fréttamaður á fætur öðrum sagt landsmönnum þessi tíðindi, án þess að taka fram að formaðurinn er jafnframt fyrrverandi formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna?

H versu lengi ætla fréttamenn að tala um að þessi stétt eða hin krefjist „leiðréttingar“ launa? Er fólkið ekki að fá það sem um var samið? Eru launin röng? Hvers vegna er ekki einfaldlega sagt rétt frá og sagt að fólk vilji hærri laun?