Þriðjudagur 9. september 2008

253. tbl. 12. árg.

Í allri umræðunni um yfirtöku ríkisins á fasteignalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac kemur berlega í ljós að félagshyggja er trúarbrögð. Allir atburðir eru opinberun trúarinnar sama hversu mikið þeir ganga á skjön við trúarsetningarinnar. Nú keppast álitsgjafar við að úthrópa yfirtöku ríkisins á ríkisstofnunum Fannie Mae og Freddie Mac sem skipbrot kapítalismans þótt allir sjái að ríkisfyrirtæki sem þessi geta varla talist afurð frjáls markaðar. Helstu stuðningsmenn Fannie og Freddie hafa komið úr villta vinstrinu. Barney Frank og Paul Krugman eru ágæt dæmi þar um. Talsmenn frjáls markaðar hafa hins vegar varað við hættunni sem stafaði starfsemi þessara stofnana.

Fannie Mae og Freddi Mac eru mjög svipaðar stofnanir og Íbúðalánasjóður íslenska ríkisins, fyrir utan það að þær eru að hluta til fjármagnaðar af eiginfé sem verslað er með í Kauphöllinni í New York. Talsmenn frjáls markaðar í Bandaríkjunum hafa mótmælt þessum stofnunum rétt eins og skoðanabræður þeirra hér á landi hafa varað við Íbúðalánasjóði. Vinstrimenn hér hafa svarað þessum viðvörunum með skætingi um að verið sé að ganga erinda bankanna í „aðför að Íbúðalánasjóði“. Þessi skætingur er nákvæmlega sá sami og í Bandaríkjunum eða eins Paul Krugman sagði nýlega í grein í New York Times:

What you need to know here is that the right – the WSJ editorial page, Heritage, etc. – hates, hates, hates Fannie and Freddie. Why? Because they don’t want quasi-public entities competing with Angelo Mozilo.

Það er áhugavert að skoða þær viðvaranir sem settar voru fram um þessar stofnanir áður en verðbóla á húsnæðismarkaði sprakk í Bandaríkjunum. Lawrence J. White skrifaði slíka gagnrýni fyrir Cato Institute árið 2004 undir yfirskriftinni Fannie Mae, Freddie Mac, and Housing Finance: Why True Privatization Is Good Public Policy. Þar er varað við ábyrgð skattgreiðenda á stofnunum og afleiðingum þess fyrir fjármálakerfið lendi önnur þeirra í vandræðum. Bent er á að niðurgreiðsla á vöxtum geti leitt til óeðlilegrar hækkunar á fasteignaverði. Lagt er til að fyrirtækin verði algjörlega einkavædd og að bandaríska ríkið lýsi því afdráttarlaust yfir að það ábyrgist ekki skuldir fyrirtækjanna.

Bandarísk yfirvöld hlustuðu ekki á þessar viðvaranir og því fór sem fór. Ætli Íslendingar með sinn ríkisrekna Íbúðalánasjóð dragi einhvern lærdóm af þessu?