Fimmtudagur 11. desember 2008

346. tbl. 12. árg.

R íkisstjórn og þing virðast staðráðin í að fæla alla sem eiga fjármuni úr landi.

Neyðarlögin gáfu tóninn. Með þeim varð ljóst að íslensk stjórnvöld eru óútreiknanleg. Þau breyta reglum og rétti manna fyrirvaralaust, með afturvirkum hætti og mismuna mönnum eftir þjóðerni og búsetu.

Gjaldeyrishöftin eru grein af sama meiði. Þau koma í veg fyrir að menn geti efnt samninga sem gerðir voru góðri trú um að Ísland væri réttarríki. Fjöldi manna er lokaður inni í landinu með fjármuni sína. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar taka undir og hafa jafnvel forgöngu um að bankaleynd verði aflétt. Viðskiptaráðherrann hamast jafnvel í öðrum ríkjum vegna málsins. Hann virðist tilbúinn til að fórna þeim hagsmunum íslenskra skattgreiðenda að fá eitthvað fyrir Kaupþing í Lúxemborg fyrir þetta baráttumál sitt.

Og nú er stjórnin farin að hækka skattana. Samkvæmt fréttum á tekjuskattur einstaklinga að hækka um 1%. Það kemur sér aldeilis vel fyrir skuldsett heimili. Reikningurinn sem heimilin og fyrirtækin fá vegna Ríkisútvarpsins er hækkaður, meðal annars til að standa undir kostnaði við spjallþátt þar sem allir sem snert hafa á atvinnurekstri eru úthrópaðir þjófar.

Allt ber að sama brunni. Hræða á bæði íslenska og erlenda fjárfesta frá atvinnuuppbyggingu hér á landi.

H inn harkalegi samdráttur efnahagslífsins um þessar mundir ætti að kæta að minnsta kosti tvo menn. Háskólaprófessorarnir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason hafa haft miklar áhyggjur af aukinni skattbyrði og ekki síður ójafnri dreifingu tekna. Með snarlækkandi tekjum landsmanna mun skattbyrði lækka hratt því skattkerfið er einu sinni þannig að hærri tekjur leiða til aukinnar skattbyrði. Lækkandi tekjur munu lækka skattbyrðina nema ríkisstjórnin haldi áfram að hækka skatthlutföllin. Sömuleiðis er ljóst að mörg vel launuð störf hafa horfið eða munu hverfa á næstunni. Munurinn á þeim hæst og lægst launuðu mun því sennilega minnka. Til hamingju Stefán og Þorvaldur.