Föstudagur 12. desember 2008

347. tbl. 12. árg.

Á þessum vettvangi hefur í tæp tólf ár verið lagt til reglulega að Íslendingar hugi að öðrum gjaldmiðli en krónunni, að því ógleymdu að einokun ríkisins á seðlaprentun verði afnuminn og seðlabankinn lagður niður. En Seðlabanki Íslands er hér enn.

Og það hefur verið talsvert rifist um það undanfarið hvaða skilaboð seðlabankinn hafi sent stjórnvöldum, atvinnulífi og almenningi á liðnum misserum. Hefur þetta þras jafnvel birst í deilum um hver sagði hvað í símtölum og á fundum nokkurra manna. Formaður viðskiptanefndar Alþingis krefst þess jafnvel að fá upptökur af símtölunum. Lítinn sóma hafa menn af þessu þrefi.

Það getur nefnilega vart farið á milli mála hver skilaboð bankans hafa verið síðustu þrjú árin. Seðlabankinn sendir bara frá sér ein skilaboð sem hald er í. Þau eru send út reglulega sem ein tala. Stýrivextir. Einfaldara getur það ekki verið. Svo mikil eftirvænting er jafnan eftir þessum skilaboðum að greiningardeildir fjármálafyrirtækja reyna að spá fyrir um hver þau verði. Frá skilaboðunum er svo sagt í öllum fjölmiðlum og alls kyns menn veita álit sitt á þeim.

Í mörg ár hefur þessi tala verið mjög há og skilaboðin því mjög afgerandi. Það hefur verið leitun að jafn háum stýrivöxtum. Hvað þýðir það?

Jú seðlabankinn hefur verið að benda mönnum á að spara og taka ekki lán, leggja fremur fé í sparnað á háum vöxtum en að eyða því. Síðustu tvö hafa stýrivextirnir verið svo háir (14 – 15%) að segja má að seðlabankinn hafi orgað á þjóðina að gæta aðhalds og hafa vaðið fyrir neðan sig. Þessi öskur voru svo há að margir tóku fyrir eyrun og tóku svo erlend lán á lægri vöxtum til að kaupa hús, bíl og húsbíl. Líklega hefðu aðeins lægri hvatningaróp skilað betri árangri því þau hefðu ekki gert lántöku í erlendri mynt jafn freistandi og ella. Það er ekki nýlunda aðgerðir ríkisvaldsins hafi þveröfug áhrif við það sem þeim er ætlað. En það breytir því ekki að með vaxtastefnu sinni vildi seðlabankinn senda kristaltær skilaboð til landsmanna um að spara og taka ekki lán.

Staða margra heimila og fyrirtækja væri allt önnur ef á þeim hefði verið tekið mark.

G

Göran Persson: Það er engin fræðigrein sem er jafn ofmetin og hagfræði.

öran Persson, fyrrverandi fjármála- og síðar forsætisráðherra Svíþjóðar kom til hingað til lands í vikunni og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands og ræddi við fjölmiðla og reyndi að miðla Íslendingum af reynslu Svía af áföllum í bankaheiminum. Persson fór fyrir Svíum þegar þeir börðust við bankakreppu á tíunda áratug síðari aldar og margir telja því forvitnilegt að heyra ráðleggingar hans. Einkum voru íslenskir kratar spenntir að heyra í honum, enda var Persson lengi leiðtogi Jafnaðarmannaflokks Svíþjóðar. Því miður hefur eitthvað dregist hjá málssvörum íslenskra krata að vitna mikið í orð Perssons hér, en að því hlýtur að koma, því kratar hafa jafnan verið duglegir að vitna í andlega leiðtoga sína í öðrum löndum.

Morgunblaðið ræddi við Göran Persson í gær og þar bar margt á góma. Hér eru nokkur atriði sem þessi leiðtogi Svía og sænskra jafnaðarmanna hefur að segja Íslendingum:

· Sænskir jafnaðarmenn leiddu Svíþjóð inn í Evrópusambandið. Eftir Persson er haft að „mikið skorti enn á að almenningur styðji ESB, lýðræðishalli sé í sambandinu og hann telji að mjög erfitt sé að vinna bug á þeim vanda.“
· Persson er spurður um aðkomu hagfræðinga að mikilvægum ákvörðunum í efnahagslífinu. „Það er engin fræðigrein sem er jafn ofmetin og hagfræði, þetta snýst í reynd mikið um heilbrigða skynsemi“, svarar hann.
· Blaðamaður segir að íslenska krónan sé minnsti gjaldmiðill heims og spyr hvort hægt sé að nota hana til langframa. Persson svarar að Íslendingar geti notað krónuna til langframa, en þeir verði hins vegar að hafa mikinn aga á sér og ekki vera kærulausir.
· Blaðamaður nefnir þá ógnvekjandi staðreynd, sem íslenskum blaðamönnum er mjög hugleikin, að formaður bankastjórnar seðlabanka Íslands sé ekki hagfræðingur. Og fær svarið: „Seðlabanki þar sem ekki er til staðar í stjórninni einhver með þekkingu á alþjóðlegum stjórnmálum er illa staddur, það er mjög mikilvæg færni. Og sá sem nú stýrir bankanum er mjög hæfur á því sviði.“

Það er vonandi að íslenskir kratar hafi haft gaman af að fá þennan reynda félaga sinn í heimsókn.