Fimmtudagur 7. febrúar 2008

38. tbl. 12. árg.

E

Nú er að koma í ljós að hver maður má  aðeins gefa út vissan fjölda bóka. Áður hafa samkeppnisyfirvöld til dæmis bannað mönnum að baka of mörg brauð.

r ekki augljóst hver tapar mestu á því að samkeppnisyfirvöld hafi heimild til að banna stóru „markaðsráðandi“ fyrirtæki að kaupa nýtt fyrirtæki á sama markaði? Eigandi nýja fyrirtækisins missir líklegustu kaupendurna. Ef til vill hverfa allir hugsanlegir kaupendur með þessum hætti og nýja fyrirtækið verður gjaldþrota. Eigendur nýja fyrirtækisins tapa fé og starfsmenn missa vinnuna.

Eykur það líkurnar á því að menn hefji keppni við stór fyrirtæki þegar mikilvægustu útgönguleiðinni – gangi reksturinn ekki nægilega vel til að halda honum áfram óbreyttum – er lokað af samkeppnisyfirvöldum?

Íslensk samkeppnisyfirvöld hafa verið að apa þessa takta eftir erlendum á undanförnum árum. Við getum ekki verið minni menn hér en að banna eða skilyrða „samruna“ fyrirtækja sem flest eru þó agnarsmá í samanburði við erlend. Einu bakaríi er bannað kaupa annað. Menn lenda í rannsókn og fá hugsanlega sekt fyrir að bjóða neytendum mjólkurpott á eina krónu.Tölvupóstar milli samstarfsmanna fyrirtækja, þar sem þeir brýna hver annan í samkeppni við önnur fyrirtæki, eru slitnir úr samhengi og leiða til sekta upp á mörg hundruð milljónir króna. “Nú skulum við taka þá strákar” er túlkað sem vilji til að misnota svokallaða markaðsráðandi stöðu en það mun vera lögbrot.

Tugir embættismanna sitja sveittir við þessa iðju og kostnaður skattgreiðenda af þessu eykst ár frá ári.

Um nýjasta afrekið á þessu sviði mátti lesa á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Samkeppnisyfirvöld hafa gert bókaútgáfu að selja útgáfuréttinn að orðabók og bókum Halldórs Laxness. Að öðrum kosti má útgáfan ekki kaupa aðra útgáfu. Íslenska ríkið veitir fjölda rithöfunda laun, styrkir alls kyns bókaútgáfu, rekur bókasöfn og leggur lægri virðisaukaskatt á bækur en margt annað sem hugurinn girnist. Allt gert til að bækur haldi nú áfram að koma út á íslensku. En þegar einkafyrirtæki ætlar að gefa út of marga titla af þessum blessuðu bókum er gripið hart í taumana.