Menn geta þess vegna gert það í sumar að setjast yfir það verkefni að semja ný fjölmiðlalög sem taki á fleiri þáttum heldur en eignarhaldinu vegna þess að það þarf að skoða fjölmiðla út frá miklu víðara sjónarhorni heldur en bara eignarhaldinu. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld. |
S
Tveir menningarheimar mætast; berir að ofan og berir að neðan. |
tjórnarandstaðan vill ekki bara „fjölmiðlalög“ sem taki á eignarhaldi fjölmiðla heldur fleiri þáttum í starfsemi þeirra. Eða svo segir forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Hvaða þættir þetta eru kom því miður ekki fram hjá efninu en líklega er þar meðal annars um að ræða svonefnt „sjálfstæði ritstjórna“ sem þingmenn flokksins hafa viðrað.
Ekki-forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, orðaði það svo í grein í Fréttablaðinu að „…að fjölmiðlar verði skyldaðir til að setja sér innri reglur sem tryggja sjálfstæði ritstjórna.“ Hvað þetta þýðir nákvæmlega er ekki gott að segja en ef þetta á að hafa einhver áhrif hljóta þessar reglur að eiga að takmarka aðkomu eigenda að ritstjórn fjölmiðla. Gunnar Smári Egilsson ritstjóri og einn eigenda Fréttablaðsins yrði væntanlega að víkja úr ritstjórastóli fyrir Sigurjóni bróður sínum en kannski væru það einnig of mikil tengsl milli eiganda og ritstjóra samkvæmt fjölmiðlalögum Samfylkingarinnar. Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, fengi þá ekki rönd við reist þótt ritstjórn blaðsins færi að gera lesendum til hæfis eða segja Gauloises vont tóbak. Yrðu þessi lög á endanum að alþjóðlegri fyrirmynd fengju eigendur The Walt Disney Company heldur ekki að gert ef ritstjóri Andrésblaðsins setti Andrés og „frændur“ hans þrjá í buxur til að sænskum klámrýnum og kynjafræðingum liði betur.
Það eru flestir sammála um að breytingar þær sem gerðar voru á samkeppnis- og útvarpslögum í vor takmarka frelsi ákveðinna manna eða fyrirtækja til að reka fjölmiðla umfram það sem áður var í samkeppnislögunum. Varaformaður Samfylkingarinnar talar þannig að hann vilji halda einhverjum slíkum hindrunum. Auk þess vill hann setja lög um fleiri þætti. Það lítur því út fyrir að fengi Samfylkingin að setja ný fjölmiðlalög yrðu ekki aðeins takmarkanir á eignarhaldi í þeim lögum heldur einnig fyrirmæli um hvernig á að reka fjölmiðlana. Þeir sem yrðu svo heppnir að fullnægja skilyrðum um eignarhald fengju þá ekki að reka fjölmiðlana eins og þeim sýndist heldur fengju um það lagafyrirmæli. Það yrði tekið á fleiri þáttum.
Vefþjóðviljinn er því að vonum spenntur að sjá hvernig frumvarp Samfylkingarinnar, og jafnvel stjórnarandstöðunnar allrar, kemur til með að líta út. Já, hvar er fjölmiðlafrumvarp stjórnarandstöðunnar?