M
Fulltrúar Rangárþings ytra bera ekki aðeins af í útsvarsmálum á landsbyggðinni heldur einnig í almennum glæsileik á landsvísu. |
eð nokkuð reglubundnum hætti skýtur hugmyndin um að ríkið leggi lægri skatta á sveitafólk en borgarbúa upp kollinum. Hún er studd sömu rökum og aðrar tillögur um sértækar aðgerðir ríkisvaldins í byggðamálum. Það er engu líkara en að sumir menn telji að opinber byggðastefna hafi skilað einhverjum árangri hingað til. Flestum fylgismönnum þessarar tillögu er einnig tíðrætt um jöfnuð og mikilvægi hans en gefa lítið fyrir jafnræði landsmanna fyrir skattalögum.
Það er hins vegar að mestu leyti óþarft fyrir menn að þvælast með þetta mál í þingsali og því engin ástæða til að málið sé aðallega rætt af þingmönnum eins og sjá mátti í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi þar sem Pétur Blöndal og Kristinn H. Gunnarsson tókust á um það og öllum er væntanlega ljóst hvor vildi hvað. Helmingurinn af því sem hverfur úr launaumslögum landsmanna um hver einustu mánaðamót rennur til sveitarfélaga sem útsvar. Ef landsbyggðarmenn telja það vænlegt til árangurs að lækka skatta á íbúa geta þeir byrjað á því að lækka útsvarið heima hjá sér.
Flest sveitarfélög, til dæmis þrjú langstærstu sveitarfélög landsins Reykjavík, Hafnarfjörður og Kópavogur, leggja hámarksútsvarið 13,03% á íbúa sína svo það tvímælalaust hægt að bjóða betur en stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þótt af einhverjum óskiljanlegum ástæðum sé lögbundið lágmarksútsvar 11,24%. Það þarf auðvitað að afnema lágmarkið svo sveitarfélög vítt og breitt um landið geti reynt fyrir sér með verulega lægra útsvar til að lokka menn á staðinn. Landsbyggðarmenn geta meira að segja kynnt sér hvernig menn fara að því að bjóða betur í litlum sveitarfélögum með því að skoða sig um á Seltjarnarnesi.
En áhugi landsbyggðarmanna á skattalækkunum er hins vegar ekki meiri en svo að aðeins þrjú örsmá sveitarfélög á landsbyggðinni bjóða nú þegar upp á lágmarksútsvarið 11,24%. Ekkert sæmilegt bæjarfélag á landsbyggðinni leggur annað en hámarksútsvar á íbúa sína nema Rangárþing ytra (Hella) sem býður 0,04% afslátt af hámarkinu, sem ekki skyldi vanþakka.
Eins og kemur fram á vef Rangárþings ytra prýddu fulltrúar sveitarfélagsins forsíðu síðasta heftis spennutímaritsins Sveitarstjórnarmála. en myndin var tekin á síðasta landsþingi sveitarfélaga þar sem ýmislegt hefur verið brallað. Fyrirsætustörfin eru skýrð á vef sveitarfélagsins með þeim orðum að þeir beri af öðrum sveitarstjórarmönnum sökum „skörugleika og glæsimennsku“.
F rjáls framlög standa undir útgáfu Andríkis á Vefþjóðviljanum. Það er mjög einfalt að ganga til liðs við þann góða hóp sem styður útgáfuna. Það má gera með því að smella hér.