Laugardagur 30. júní 2007

181. tbl. 11. árg.

F yrir nokkru gerðist það að Morgunblaðið sagði frá nýföllnum hæstaréttardómi og birti með frétt sinni mynd af dómurum málsins. Varð þá uppi fótur og fit, og ekki eingöngu vegna myndarleika dómaranna, heldur reyndust ýmsir á þeirri skoðun að það væri mjög óeðlilegt að birta myndir af dómurum í tengslum við fréttir af dómum þeirra; slíkt gæti hreinlega ekki verið gert af neinum eðlilegum ástæðum. Morgunblaðið hafði heldur ekki lagt slíkt í vana sinn og þótti ljóst að það vildi lýsa vanþóknun sinni á þessum tiltekna dómi með þessum hætti.

Nú má auðvitað taka undir að ekki væri skemmtilegt ef dómarar færu að láta hugsanlegar myndbirtingar hafa áhrif á dómsniðurstöður sínar. En ekki verður heldur horft fram hjá hinu að dómarar fara með opinbert vald, enginn hefur eftirlit með störfum þeirra og þeir þurfa engum að standa skil á neinu. Þeir geta varla farið fram á að fá auk þess að fara huldu höfði.

The New York Times telur eðlilegt að birta myndir af dómurum á forsíðu. Sú staðreynd er ekki endilega sérstök viðurkenning á gæðum slíkrar blaðamennsku.

Fyrir utan þetta, þá er mikilvægt að minna á að dómarar eru menn af holdi og blóði en ekki alvitrar stofnanir. Oft virðist sem vísdómi eins og dómum Hæstaréttar og jafnvel álitum umboðsmanns alþingis og hinna óteljandi kærunefnda og eftirlitsstofnana landsins sé ekki tekið eins og mannlegum álitum heldur fremur eins og óskeikul og hlutlaus vísindastofnun hafi birt stórasannleik og allir sem fá á baukinn úr slíkum áttum hljóti að sama skapi að vera rammsekir um hvers kyns afglöp. Sjaldnast virðist sá möguleiki nefndur, hvað þá meira, að mistökin geti verið hjá hinum hlutlausa „eftirlitsaðila“. Hér eru þó undanskildir dómar í kynferðisbrotamálum en þar vill jafnan svo til að allir vita meira um málið en dómarar þess.

En kannski höfðu þeir rétt fyrir sér, þeir sem töldu myndbirtingu Morgunblaðsins óeðlilega. Sömu vinnubrögð eru viðhöfð víðar, eins og á hinu ofmetna blaði, The New York Times, og er sá skyldleiki Morgunblaðinu enginn vegsauki. Í gær lét The New York Times sér ekki nægja að birta á forsíðu myndir allra dómara í nýju máli, heldur var í fréttaskýringu fjallað um sjö eldri dóma og fylgdu fréttinni myndir allra dómara þeirra líka. Sú blaðamennska sem þykir eðlileg á The New York Times, hefur auðvitað líkurnar heldur á móti sér.