Helgarsprokið 3. desember 2006

337. tbl. 10. árg.

Í september gaf Fraser Institute út hið árlega rit sitt Economic Freedom of the World 2006 Annual Report. Mælingin á efnahagsfrelsi er að þessu sinni fyrir árið 2004. Það er ánægjulegt, eins og raunar hefur komið fram í fréttum, að Ísland hækkar einkunn sína og fer upp um sæti á meðal þeirra þjóða sem mældar eru. Það er raunar erfitt að verjast þeirri hugsun að sú jákvæða þróun sé að nokkru leyti þingflokki Samfylkingarinnar að þakka, enda hefur formaður flokksins, kveðið upp úr um að þingflokkurinn sé svo ófélegur að hann hafi fælt kjósendur frá skatta- og haftastefnu flokksins.

Að þessu sinni skrifar William Easterly inngang að ársritinu. Easterly var áður hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum en er nú prófessor við New York háskóla, enda mæltist gagnrýni hans á árangursleysi Alþjóðabankans og þróunaraðstoðariðnarins í The Elusive Quest for Growth ekki vel fyrir hjá vinnuveitendum hans. Nú síðast gaf hann út bókina The White Man’s Burden: Why the West’s Efforts to Aid the Rest Have Done So Much Ill and So Little Good.

„En hvers vegna er ekki líklegt að áætlanir Sachs og Sameinuðu þjóðanna gangi upp frekar en áætlanir Leníns eða Maós? Easterly segir talsmenn áætlunarbúskapar vanmeta hversu sjaldgæfur efnahagslegur árangur sé. Í áætlunarbúskap er einni stefnu troðið upp á hagkerfið og þá er líka eins gott að sú stefna sé rétt.“

Inngangur Easterly heitir Freedom versus Collectivism in Foreign Aid og er einkar fróðleg lesning. Easterly byrjar að segja frá því að Karli Marx hafi ratast rétt á munn þegar að hann sagði söguna endurtaka sig, fyrst sem tragedíu en svo sem farsa. Þetta á ekki síst við um þróunaraðstoð. Eftir að hafaséð hvernig heildarhyggja og áælunarbúskapur hefur leikið hagkerfi kommúnistaríkjanna grátt á 20. öld og raunar Kúbu og Norður-Kóreu á þeirri 21., eru þessi sjónarmið að ryðja sér rúms hjá Sameinuðu þjóðunum og þróunaraðstoð á þeirra vegum. Farsinn er vitanlega að halda að hægt sé að koma þjóðum í bjargálnir með áætlunarbúskap í stað þess að notast við markaðshagkerfi eins og þau hagkerfi sem náð hafa árangri.

Æðsti prestur þessa nýja áætlunarbúskapar er Jeffrey Sachs en í bók sinni End of Povetry leggur hann til að gerðar sé fimm áætlanir fyrir öll fátæk lönd, eins og til dæmis fjárfestingaáætlun, og að starfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna eigi síðan að samræma og hafa eftirlit með áætlunum! Sennilega gæti engum nema nánum ráðgjafa Kofi Annans dottið í hug að hægt væri að framkvæma á heimsvísu það sem alls staðar hefur mistekist að framkvæma á landsvísu.

Raunar bendir Easterly á að Kofi Annan hafi bent á að þetta væri leið til að endurlífga Sameinuðu þjóðirnar. Það er þó engin ástæða til að ætla að Sachs og félögum gangi annað en gott eitt til með tillögum sínum. Sachs segist í bók sinni halda að hagfræði geti orðið eins og læknislist sem lækni samfélög af ýmsum meinsemdum með þekkingu sinni. Líking hans er furðulík hugmyndum ýmissa frumherja heildarhyggjunnar eins og til dæmis Platons. Sachs heldur því fram að það séu þrjár ástæður fyrir því að þjóðir þurfi á að hjálp að halda til að komast í bjargálnir: Að meðal fátækustu þjóðanna hafi fólk ekki tök á því að spara, að barneignir séu of miklar á meðal fátækra þjóða og að fjárfesting utanfrá sé nauðsynleg til að nýta aukinn jaðarábata af fjárfestingum.

Easterly athugar hvernig þessar kenningar koma heim og saman við þau gögn sem er að finna í ársritinu. Hann kemst í fyrsta lagi að því að það er mjög sterk fylgni á milli efnahagsfrelsis og þjóðartekna á mann. Í öðru lagi athugar hvort að finna megi stuðning við röksemdir Sachs hér að ofan og kannar áhrif upphafstekna á hagvöxt það er, ef fullyrðingar Sachs eru réttar, hvort fátækustu ríkin geti vaxið eins hratt og þau sem ríkari eru. Þegar tekið er tillit til efnahagsfrelsis hafa upphafstekjur hins vegar ekki áhrif á hagvöxt. Loks athugar Easterly áhrif efnahagsaðstoðar á hagvöxt. Niðurstaða hans er sú að fylgnin er beinlínis neikvæð. Hann bendir þó á að flestar aðrar niðurstöður hafi sýnt að áhrifin séu engin og er ekki reiðubúinn að fallast á eigin niðurstöður án frekari rannsókna.

En hvers vegna er ekki líklegt að áætlanir Sachs og Sameinuðu þjóðanna gangi upp frekar en áætlanir Leníns eða Maós? Easterly segir talsmenn áætlunarbúskapar vanmeta hversu sjaldgæfur efnahagslegur árangur sé. Í áætlunarbúskap er einni stefnu troðið upp á hagkerfið og þá er líka eins gott að sú stefna sé rétt. Á markaði hins vegar fer fram tilraunastarfsemi, það veit enginn fyrirfram hvaða atvinnugreinar eða fjárfestingar verða ábatasamar. Valdreifing og tilraunastarfsemi sé best fallin til að takast á við óvissu.

Ef við heimfærum þetta upp á Ísland, þá gat engan dreymt um það fyrir 15 árum síðan að fjárrmálaþjónusta yrði ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar, að hér væri í dag næst stærsti stoðtækjaframleiðandi og þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi. Og hvaða kontórista á Byggðastofnun eða hjá Sameinuðu þjóðunum hefði getað dottið það í hug?

Easterly bendir á að markaðir styðjist við endurkast, að atvinnuvegir sem tapa peningum hætta annað hvort að starfa eða skipta um eigendur, en þau fyrirtæki sem skili hagnaði hafi sífellt yfir meiru fé að ráða og er þannig treyst fyrir fleiri ákvörðunum. Áætlunarbúskapur styðst ekki við slíkt endurkast og raunar er skortur á árangri iðulega tekinn sem merki um vöntun á fé en ekki þörf á skynsamlegri notkun þess.