Hillary Clinton er umdeild í Bandaríkjunum. Hún er hötuð af hægrimönnum með þeim hætti að full ástæða væri til að óttast um öryggi hennar í slíku framboði. |
– Leiðari Morgunblaðsins, Demókratar á uppleið, 20. maí 2006. |
Nei það mun sennilega enginn minnast á þetta úr þessu. Ritstjórar mest selda dagblaðs á Íslandi segja bara sí svona upp úr þurru einn góðan veðurdag að hægrimenn í Bandaríkjunum muni líklega reyna að drepa Hillary Clinton fari hún í forsetaframboð. Ekki öfgasinnaðir hægrimenn, ekki trúarofstækismenn af hægri vængnum, ekki bilaðir hægrimenn eða menn allra lengst til hægri, nei nei bara hægrimenn.
Nú eru liðin tæp þrjátíu ár síðan forseti eða forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum var drepinn og í seinni tíð er lítil hefði fyrir því að drepa stjórnmálamenn þar í landi. Síðast var það reynt árið 1981 þegar Ronald Reagan var særður í skotárás. Tilræðismaðurinn hafði allt annað en stjórnmál í huga þegar hann hleypti af.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins útskýrði ekki nánar hvað hann hefur fyrir sér í því að Hillary Clinton verði í hættu láti hún verða af forsetaframboði sínu. Hann segir að hún sé umdeild en það eru ansi margir umdeildir í landi fjölbreytninnar vestan hafs. Morgunblaðið hefur ekki áður lýst yfir svipuðum áhyggjum vegna annarra umdeildra manna þar í landi.
Þessi vitnisburður Morgunblaðsins er raunar alveg dæmigerður fyrir umræðuna um Bandaríkin í mörgum evrópskum fjölmiðlum. Sleggjudómar eru allsráðandi. Menn fullyrða bara eitthvað án þess að færa nokkur rök fyrir því og vita að þeir komast upp með það því þetta er orðin viðtekin venja þegar Bandríkin eiga í hlut. Það er bara fullyrt og fullyrt, alhæft og alhæft um 300 milljónir manna af flestum þjóðernum sem búa í 50 afar mismunandi ríkjum.