Miðvikudagur 4. júní 2003

155. tbl. 7. árg.
„Frá sjónarhóli umhverfismála er strætó góður kostur. Útblástur frá strætó er svipaður og hjá fáeinum fólksbílum, þannig að fullsetinn strætó mengar mun minna pr. farþega en fólksbíll með 1 – 2 farþegum.“
 Heimasíða Strætó bs.
„32 farþegar. 1 púströr. Þú minnkar mengun með því að taka vagninn.“
 – auglýsing á strætisvögnum Seattle borgar.

Þeir bulla ekkert mikið hjá Strætó bs. En þegar kemur að svonefndum umhverfismálum telja þeir sig líklega hafa sama svigrúm og ýmsir aðrir til að fara ekkert alltof nákvæmlega með. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem standa að rekstri Strætó bs., greiða ríflega 1.200 milljónir króna á ári með rekstrinum. Það væri vissulega hægt að gera ýmislegt fyrir umhverfið fyrir þá upphæð, en að eyða henni í akstur stórra trukka um borgina er nú kannski ekki það fyrsta sem áhugamönnum um umhverfismál ætti að detta í hug. Og að halda því fram að „fullsetinn strætó“ mengi minna en fólksbíll með 1 til 2 farþega er afar einkennilegt þegar haft er í huga að líklega eru ekki nema 9 farþegar í strætó að meðaltali. Hann er því sjaldnast „fullsetinn“. Þá eru fæstir fólksbílar fullsetnir með 1-2 farþega, þannig að samanburðurinn er nú ekki beinlínis sanngjarn.

En Reykjavík er svo sem ekki eini staðurinn þar sem gamlir dieseltrukkar eru látnir hringsóla í nafni umhverfisins. Í vikunni birtist frétt í Seattle Weekly um almenningsvagna í Seattle. Þeir eru auglýstir með þeim orðunum „32 farþegar. 1 púströr. Þú minnkar mengun með því að taka vagninn.“ Þegar betur er að gáð menga strætisvagnar í Seattle allt að 60 falt meira en nýir bílar á borð við Ford Taurus eða Nissan Sentra. Þetta skýrist meðal annars af því að dieselvélar, ekki síst þær sem komnar eru til ára sinna, gefa frá sér margfalt meira sót en bensínvélar. En þannig vill til að í Reykjavík eru flestir fólksbílar með bensínvél en strætó gengur fyrir dieselvél. Þeir sem hafa lent í því að vera við hliðina á strætisvagni þegar vagnstjórinn stígur á inngjöfina þekkja reyndar vel muninn á fólksbílum og „umhverfisvænum“ strætisvögnum.

Í athugun sem Vefþjóðviljinn birti fyrir tæpum þremur árum kom í ljós að meðalstrætófarþeginn mengar síst minna en meðalfarþegi í einkabíl. Í vetur birtist svipuð athugun í DV og niðurstöðurnar voru á sama veg.