Í Reykjavík er fljótlegra að verða sér úti um ólögleg eiturlyf en að panta pitsu. Þegar náttar er lífshættulegt að vera á ferli um götur borgarinnar vegna þess að fólk sturlað af neyslu eiturefna er á ferli í leit að bráð, annaðhvort til að svala ofbeldishneigð sinni sem víman veldur eða til þess að ræna vegfarendur til að fjármagna frekari eiturneyslu. |
– Þráinn Bertelsson, Fréttablaðinu, 5. september 2005. |
Hugsanlega ætti lögreglan að banka upp á hjá Þráni Bertelssyni og athuga flýtivalið í símanum hjá honum. Ef að eiturefnasalarnir eru aðgengilegri en Eldsmiðjan þá virðist einhver hafa betri sambönd en gerist og gengur. Ef að borgarlýsing Þráins er rétt, þá er Reykjavík hreinlega farin í hundana.
En nú er þessi lýsing Þráins Bertelssonar ekki rétt, og það veit hann vafalítið sjálfur. Þráinn skrifaði grein í Fréttablaðið í gær, fjallaði þar meðal annars um ungt fólk og fíkniefni og lýsti höfuðborginni því næst svona glæsilega. Grein Þráins var efalaust skrifuð af góðum hug og samúð með því unga fólki sem neytir ólöglegra vímuefna og fremur ýmsa aðra glæpi í tengslum við þá neyslu sína. Sennilega ætlast Þráinn ekki til að vera tekinn bókstaflega þegar hann slær því fram að fljótlegra sé að afla sér eiturlyfja en pizzna. Ætli hann hafi ekki frekar ætlað að vekja fólk upp með andfælum, eða eitthvað slíkt. En það breytir ekki því að svona staðhæfingar, birtar í grein sem höfundur væntanlega vill að verði tekin alvarlega, eru frekar hvimleiðar, fyrir nú utan það að þær verða ekki til þess að menn taki frekar mark á öðru í greininni. Og þær eru algerlega óþarfar. Annað í greininni stóð alveg fyrir sínu án þess að það væri látið eins og hver venjulegur maður gæti aflað sér eiturlyfja á stundarfjórðungi.
Það virðist raunar sífellt algengara að menn slái bara einhverju fram í opinberri umræðu. Fjölmargir virðast ekkert sjá til fyrirstöðu því að fullyrða einhverja hugmynd sína eða tilfinningu eins og hverja aðra staðreynd. Það er sárasjaldan sem nokkrum er gert að færa rök fyrir staðhæfingunni eða svara fyrir hana á nokkurn hátt. Oft meira að segja talin sérstök smámunasemi að halda fyrri orðum manna upp á þá. Svo virðist sem margir líti svo á að það sé bara hluti af „umræðunni“ að fullyrða eitthvað, bara ef það hljómar nógu vel, og svo megi hamingjan vita hvort nokkuð er til í því eða ekki. Þessi er svona, þessi bara sagði þetta, þessi gerði þetta og af þessum ástæðum, þessi ætlar sér þetta, svona verður þetta, þessi gerði ekki þetta og það var af þessari fráleitu ástæðu, og svo framvegis. Svona staðhæfingar koma í blaðagreinum, netpistlum og útvarpsþáttum og ótrúlega mörgum þykir bara sjálfsagt að slíkt sé fullyrt út í loftið. Og varla er nokkur maður sem fer yfir fullyrðingarnar eða krefur skýringa eða kallar þá er fullyrða til nokkurrar ábyrgðar. Og mönnum virðist ekki koma til hugar að trúverðugleiki þeirra falli við hverja ranga fullyrðingu.
Auðvitað getur öllum skjátlast og fólk getur misminnt. En hlýtur ekki að mega ætlast til þess að menn vandi það sem þeir láta frá sér og að minnsta kosti reyni að halda ekki fram öðru en því sem er rétt? Með því er auðvitað ekki mælst gegn því að fólk segi skoðun sína. Nú eða geri að gamni sínu. Eitt er að setja fram og rökstyðja tiltekna skoðun, hvort sem er á þjóðfélagsmálum eða öðrum. Það er ekkert að því heldur að menn bregði fyrir sig augljósri glettni og gamansemi og segi þá fleira en þeir myndu annars gera. Það sem er þreytandi eru röngu staðhæfingarnar, fullyrðingarnar og kenningarnar, byggðar á tilfinningu eða orðrómi, eða einhverju sem einhvern minnir eða einhverjum finnst að gæti vel verið rétt.