Miðvikudagur 27. apríl 2005

117. tbl. 9. árg.

S

Hagkerfi Bandaríkjanna hefur vaxið um 170% á þremur áratugum en orkunotkunin aðeins um 45%.

íðast liðinn föstudag ritaði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, James I. Gadsen, grein í Morgunblaðið í tilefni af því sem Bandaríkjamenn kalla Dag jarðar, Earth Day. Sama dag var í Spegli Ríkisútvarpsins fjallað um sama efni og auðvitað af því hlutleysi og þeirri fagmennsku sem einkennir þann útvarpsþátt. Fagmennskan fólst meðal annars í því að Speglinum tókst að minnast ekki á skrif sendiherrans, en ræddi þess í stað spádóma fransks þingmanns græningja. Spádómarnir ganga í stuttu máli út á orkukreppu og stórkostlega hækkun orkuverðs með tilheyrandi efnahagshruni ef Vesturlandabúar leggja núverandi lifnaðarhætti sína ekki til hliðar. Pistlahöfundurinn sagði reyndar að við gætum „leyft okkur að efast“, en fylgdi svo þessari heimsendaspá eftir með því að halda því fram að við lifðum um efni fram og þyrftum margar jarðir ef að allir lifðu eins og við.

Menn geta velt því fyrir sér og haft á því ýmsar skoðanir hvers vegna Spegillinn kaus að minnast ekki orði á skrif sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á hinum bandaríska Degi jarðar en ræða þess í stað skoðanir fransks þingmanns græningja. Vefþjóðviljinn leyfir sér að halda því fram að ástæðan sé sú að sendiherrann hefur ekki alveg eins dökka sýn á framtíðina og franski græninginn og að hann rakti auk þess ýmislegt í umhverfismálum sem þróast hefur með jákvæðum hætti frá því Dagur jarðar var fyrst haldinn árið 1970.

James I. Gadsen bendir til dæmis á að vatn og loft í Bandaríkjunum sé mun hreinna en fyrir 35 árum. Hagkerfið hafi á síðustu þremur áratugum vaxið um rúm 170% en orkunotkunin aðeins um 45%, sem þýðir að orkan er mun betur nýtt nú en þegar stofnað var til Dags jarðar. Og sendiherrann heldur áfram:

Þar að auki minnkaði mengun frá sex helstu loftmengunarvöldunum um meira en helming. Kolsýringur, köfnunarefnissýringur, brennisteinstvíoxíð, efnisagnir, rokgjörn lífræn efni og blý í andrúmsloftinu minnkaði úr rúmum 300 milljón tonnum á ári í tæp 150 milljón tonn.

Árið 1970 höfðu Bandaríkjamenn áhyggjur af eyðingu skóga þarlendis en í dag eru skógasvæði í Bandaríkjunum, sem sum hver eru í einkaeigu, álíka stór og fyrir einni öld. Um 31 milljón hektarar eru friðlýstir, annaðhvort sem þjóðgarðar eða óbyggðir. Margir af vernduðu skógunum í vesturhluta Bandaríkjanna eru meira 100 ára gamlir. Skógverndarverkefnið sem Bush Bandaríkjaforseti hratt af stokkunum stuðlar að því að vernda skóga gegn sjúkdómum, skordýraárásum og eldi og endurheimta náttúrulegt ástand og fegurð skóganna.

Ýmislegt annað kemur fram í grein sendiherrans um jákvæða þróun umhverfismála í Bandaríkjunum, en ekkert af því virðist passa við heimsmynd pistlahöfunda Spegils Ríkisútvarpsins. Þar ómar reglulega það viðhorf að allt sé í ólestri í umhverfismálum og að Vesturlandabúar, sérstaklega þó Bandaríkjamenn, beri ábyrgðina á vandanum með græðgi sinni og efnishyggju. Það að þessi heimsmynd eigi sér ekki stoð í veruleikanum gerir ekkert til, það má alltaf vitna til spádóma franskra þingmanna græningja.