Þriðjudagur 19. október 2004

293. tbl. 8. árg.
Karlar, sem velta fyrir sér eigin stöðu innan fyrirtækja og stofnana, fari svo að konur fái að standa þar jafnfætis þeim hvað laun og ábyrgð varðar, ættu að hafa í huga að margvíslegar rannsóknir sýna að þar sem bæði kyn koma að stjórnun og stefnumótun gengur allajafna betur í rekstrinum og allir eru betur settir. Af sömu ástæðu ættu breytingar í jafnréttismálum að vera forgangsmál hjá körlunum, sem víðast halda um valdataumana í atvinnulífinu; það eru fjárhagslegir eiginhagsmunir fyrirtækjanna, sem þeir stýra, að menntun, þekking, hæfileikar og eiginleikar beggja kynja nýtist sem bezt.
 – Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins laugardaginn 16. október 2004.

Ígær gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar Geir H. Haarde fjármálaráðherra fyrir skipun fjögurra manna í „framkvæmdanefnd um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins“. Já það er hrollkaldur veruleikinn, það er til nefnd með þessu nafni.  En það var auðvitað ekki tilvist nefndarinnar sem stjórnarandstaðan var ósátt við, fremur en önnur verkefni á vegum hins opinbera, heldur að í nefndina voru skipaðir fjórir karlmenn en engin kona.

Nú bíður Vefþjóðviljinn eftir tvennu. 

Annars vegar hlýtur Morgunblaðið að taka undir gagnrýni stjórnarandstöðunnar ef eitthvað var að marka Reykjavíkurbréf blaðsins um helgina þar sem opna var lögð undir tölfræði um hlut kynjanna í öllum þeim atriðum þar sem halla þykir á konur. Morgunblaðinu þykir ekki nóg að gert til að jafna hlut kynjanna. Og ekki nóg með það heldur segir blaðið beinlínis að rekstur fyrirtækja „þar sem bæði kyn koma að stjórnun og stefnumótun [gangi] allajafna betur“. Það er magnað að blað, þar sem öll yfirstjórnin er karlkyns, framkvæmdastjórinn, ritstjórinn, báðir aðstoðarritstjórarnir og  fréttaritstjórinn eru allt karlar og í átta manna stjórn- og varastjórn er ein kona, skuli vera að lesa öðrum pistilinn um að jafna beri hlut kynjanna í stjórnunarstöðum. Blaðið hefur ekkert gert í þá veru á undanförnum árum. Ekkert. Jafnvel Vefþjóðviljinn státar af jafnara hlutfalli kynjanna í ritstjórn sinni og er hann þó ekki að heimta jöfn kynjahlutföll af sjálfum sér eða öðrum. Þegar það bætist svo við að Morgunblaðið telur það ekki aðeins siðferðilega skyldu manna að jafna hlut kynjanna heldur megi einnig græða á því  er alveg óskiljanlegt hvernig staðan er á yfirstjórn blaðsins.

Hins vegar bíður Vefþjóðviljinn spenntur eftir viðbrögðum Fréttablaðsins vegna  þessa máls. Eins og rakið var hér í blaðinu fyrir nokkru eru karlar í fimmtán helstu stjórnunarstöðum af fimmtán á Fréttablaðinu og DV. Það hefur hins vegar ekki komið í veg fyrir Fréttablaðið birti leiðara og fréttir þar sem það vandar um fyrir öðrum í svonefndum jafnréttismálum. „Hlutur kvenna gleymist ekki“ sagði í fyrirsögn eins leiðarans nýlega og í  fréttaskrifum blaðsins er reynt að klína því á menn að þeir séu andvígir jafnrétti kynjanna ef kona er ekki ráðin í hin og þessi störf út í bæ.

Ef Morgunblaðið og Fréttablaðið ráðast á fjármálaráðherrann fyrir að skipa bara karla í þessa ónefnisnefnd mun það vafalaust þykja til marks um hve vel þau standa sig í tryggja jafnan hlut kynjanna. En væri það ekki miklu fremur mælikvarði á sjálfsvirðingu þeirra?

Fyrrum talsmaður Samfylkingarinnar og núverandi varaformaður og vitringur sama flokks, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tók þátt í umræðum í Silfri Egils á Stöð 2 í fyrradag. Í umræðunum fullyrti Ingibjörg ítrekað að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði í síðustu kosningum verið í sögulegu lágmarki og enginn viðstaddra virtist sjá nokkuð athugavert við þessa fullyrðingu. Staðreyndin er þó sú, eins og flestir sem ekki eru fæddir í gær ættu að vita, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður fengið lægra fylgi en hann fékk í kosningunum í fyrra. Flokkurinn fékk 33,7% fylgi í fyrra, en árið 1978 fékk hann 32,7% fylgi og árið 1987 aðeins 27,2% fylgi. Þetta eru ef til vill ekki merkilegar upplýsingar, að minnsta kosti ekki huga þeirra kaffihúsaspekinga sem telja óþarfa að líta til fortíðar þegar rætt er um pólitík. Og það kann að vera að ýmsum megi skjátlast um ekki merkilegri hluti. En þegar meintir sagnfræðingar og spekingar um stjórnmál fullyrða eitthvað um sögulega stórviðburði hlýtur að vera hægt að ætlast til þess að þeir fari að minnsta kosti nærri staðreyndum málsins.