Vefþjóðviljinn 80. tbl. 18. árg.
Evrópusambandssinnar á þingi töluðu og töluðu þegar fyrri umræða fór fram um væntanlega afturköllun inngöngubeiðnarinnar í Evrópusambandið. Fjölmiðlar hafa ekki fjallað nægilega mikið um allt það fróðlega sem þar kom fram.
Til að bæta úr því má vitna í þrjár þingræður Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, sem hann hélt 11. mars síðastliðinn.
Klukkan 16:31 hóf hann ræðu þar sem hann sagði til dæmis:
Ég lít þannig á stjórnmál að við séum að vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Allar þær ákvarðanir sem við tökum eiga að miðast að því að bæta hag og hagsæld þjóðarinnar. Nú hef ég ekki hugmynd um það frekar en nokkur einasti maður á Alþingi hvort það sé til hagsbóta fyrir okkur að fara í ESB. Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég vil samt trúa að það sé til hagsbóta, ekki síst í ljósi sögu Íslands, ekki síst í ljósi sögu gjaldmiðils okkar, þess hvernig staðan er á okkur núna og hvernig landinu hefur verið stjórnað alla tíð. Ég trúi því að með því að ganga í Evrópusambandið öðlumst við agaðri vinnubrögð. Ég hef hitt fólk sem hefur þurft að vinna að því að sækja um IPA-styrkina svonefndu og það sagði að það væri með ólíkindum hversu fagleg vinnubrögð eru lögð til grundvallar til að fá þessa IPA-styrki.
Með öðrum orðum, klukkan 16:31 hefur Páll Valur ekki hugmynd um hvort það yrði Íslandi til hagsbóta að ganga í Evrópusambandið. Hann vill þó trúa því, ekki síst vegna þess hvernig landinu hafi verið stjórnað alla tíð. Svo er alveg með ólíkindum hversu fagleg vinnubrögð eru á bak við útdeilingu þessara IPA-styrkja. En engu að síður, þá hefur Páll Valur ekki hugmynd um þetta. Hann hefur „bara ekki hugmynd um það“.
Páll Valur hélt aðra ræðu sem hófst klukkan 16:51. Þá sagði hann til dæmis:
Fyrir mér eru nægar sannanir komnar fram fyrir því að betra sé fyrir okkur að vera í Evrópusambandinu. En ég þori ekkert að fullyrða um það, ekki fyrr en samningur liggur fyrir, ekki frekar en í öllum öðrum málum.
Nákvæmlega 20 mínútum eftir að Páll Valur hefur ekki hugmynd um hvort Íslandi yrði til hagsbóta að ganga í Evrópusambandið, eru komnar nægar sannanir fyrir því að það yrði betra. Ekki vísbendingar, ekki sterk rök heldur sannanir. En þrátt fyrir þessar sannanir þorir Páll Valur ekki að fullyrða neitt, fremur en í öllum öðrum málum.
Klukkan 16:56 hóf Páll Valur þriðju ræðuna og þar sagði hann til dæmis:
Ég hef reynt af fremsta megni að koma fram af kurteisi og auðmýkt og ég hef hvatt ríkisstjórnina til góðra verka. Þið getið skoðað ræðurnar mínar ef þið trúið því ekki. Ég hef ekkert endilega litið á mig sem stjórnarandstæðing, ég lít bara á mig sem þingmann þjóðarinnar sem er valinn hérna inn til að gæta hagsmuna þjóðarinnar.
Eitt af stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar í mínum augum er innganga í Evrópusambandið eða aðildarviðræðurnar og það er búið að vera það í mörg ár. Það mun verða mitt baráttumál áfram. En við getum haldið áfram að svamla hér í kviksyndi fáviskunnar og taka afstöðu til hlutanna án þess að hafa kynnt okkur þá. Mér sýnist ríkisstjórnin vera að bjóða okkur upp á það.
Fyrir 25 mínútum hafði Páll Valur ekki hugmynd um hvort það yrði til hagsbóta fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Nú er það orðið eitt af stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar og búið að vera það í mörg ár. Þeir sem ekki taka undir þetta með Páli Vali geta auðvitað haldið áfram að svamla í kviksyndi fáviskunnar, en Páll Valur mun berjast áfram af kurteisi og auðmýkt, eins og hann segir sjálfur af auðmýkt sinni. Þeir sem efast um það geta skoðað ræðurnar hans.