Föstudagur 6. ágúst 2004

219. tbl. 8. árg.

Eldislax er ekki í uppáhaldi hjá dálkahöfundi  The Daily Telegraph sem fjallaði í vikunni um úrvalið í fiskborðum Evrópu. Í greininni er bent á að munur sé á eldislaxi og þeim villta, bæði hvað útlit varðar og næringargildi. Greinarhöfundur tekur reyndar fullt djúpt í árinni með því að halda því fram að eldislax sé slæmur fyrir heilsuna en neysla á villtum laxi sé slæm fyrir laxastofninn. Það er þó hægt að taka undir með þeirri skoðun sem kemur fram í The Daily Telegraph að hinn villti lax sem á boðstólum er í Evrópu er oft á tíðum ekki heldur kræsilegur. Hann hefur mátt sín lítils gegn þéttriðnum netum fiskveiðiflota ýmissa Evrópusambandsríkja. Er þar ekki síst átt við flota Írlands sem hefur það fyrir sið að skrapa upp sem mest hann má af eins litlum laxi og augað nær að greina. Svoleiðis lax, þótt villtur sé, er oft ekki sambærilegur þeim villta laxi sem til að mynda Íslendingar þekkja. Verðið er heldur ekki sambærilegt enda ríður enginn feitum hesti frá útgerð í Evrópusambandslöndunum.

Eins og kom fram fyrir skemmstu þá reynir Evrópusambandið nú að hindra markaðssókn eldislax í Evrópu en laxeldi fer fram helst utan ríkja ESB. Á sama tíma stunda ríki ESB skefjalausa ofveiði og ónýta þar með þá auðlind sem hafið er. Það er ekki nema von að spurt sé í The Daily Telegraph af hverju fiskveiðistjórnunarkerfi ESB sé svo ömurlegt sem raun ber vitni á meðan lönd eins og Ísland og Nýja-Sjáland byggi hagsæld sína á fiskveiðum byggðum á einkaeignarrétti. En það er ekki nóg með að lýst sé frati á fiskveiðistjórnun ESB heldur er það álit greinarhöfundar að líkur á úrbótum á því séu svo hverfandi að nær sé að huga að öðrum möguleikum við að hagnýta Norður-Atlantshafið. Hann stingur upp á því að sökkva olíupöllum sem þar eru þegar notkun þeirra er hætt og binda vonir við myndum kóralrifja en kóralrif eru mikil tekjulind fyrir sum ríki.