Miðvikudagur 14. júlí 2004

196. tbl. 8. árg.
Þingið getur fellt úr gildi þessi lög. Ég held að formlega séð fái það staðist. Hitt er svo annað mál hvernig það lítur út lýðræðislega þegar búið er að taka ákvörðun um að þjóðin fái að segja skoðun sína. Ég hugsa að þetta standist lögfræðilega en er í meiri vafa um þetta lýðræðislega.
 – Jónatan Þórmundsson, prófessor og talsmaður „Viðbragðshóps Þjóðarhreyfingarinnar“, í Fréttablaðinu 5. júlí 2004.

Þ

Fréttablaðið  ræddi við talsmann „viðbragðshóps Þjóðarhreyfingarinnar“, Jónatan Þórmundsson prófessor. Hann taldi hið nýja frumvarp ríkisstjórnarinnar standast lögfræðilega.

að er alveg rétt hjá Jónatani að það stenst lögfræðilega að alþingi felli úr gildi þau lög sem tóku gildi þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands neitaði að staðfesta þau á dögunum. Vefþjóðviljinn er sammála Jónatani um það. Blaðið er hins vegar ekki sammála honum varðandi síðara atriðið, hvort það sé „lýðræðislegt“, en þar er komið að pólitískri spurningu, sem lögfræðingar hafa auðvitað hvorki meira né minna um að segja en aðrir. Og er þá reyndar ekki sagt að alltaf sé meira að marka lögfræðinga en aðra þegar talið berst að lögfræði. En varðandi fyrra atriðið, hvort alþingi sé heimilt að samþykkja lög sem fella hinar nýgerðu lagabreytingar úr gildi, þá er það á mörkunum að Vefþjóðviljinn trúi því að nokkur vitiborinn maður geti í raun talið sér trú um að svo sé ekki. En svo virðist samt vera að það eigi að reyna að slást um það líka og má af því sjá hversu langt menn eru til í að ganga til að komast hjá efnislegri umræðu um „fjölmiðlalögin“ sjálf.

Og áður en lengra er haldið, þá er rétt að benda á að í sömu frétt er einnig rætt við Sigurð Líndal, fyrrverandi prófessor. Sigurður segir að sér „hefði þótt eðlilegra að fella lögin úr gildi og í kjölfar þess færi fram undirbúningur og umræða um nýja lagasetningu.“ Hann nefnir hins vegar ekki einu orði þá hugmynd að stjórnarskrá lýðveldisins væri brotin með nýrri lagasetningu. Honum hefði einfaldlega þótt „eðlilegra“ að bíða með hina nýju lagasetningu; ræða hana lengur. Það er alveg sjónarmið eins og hvert annað – það má alltaf deila um það hvenær lög hafa verið rædd ýtarlega og hvenær eitthvað mikilvægt er ósagt – en það er algerlega fráleit hugmynd að stjórnskipulegt gildi laga geti ráðist af því hversu lengi málið er rætt, svo lengi sem fylgt er hinu raunverulega skilyrði um þrjár umræður á þingi, og þær fara fram í samræmi við þingsköp.

En þá að nýjustu viðbárunum. Nú er byrjað að halda því fram að löggjafarþingið geti hreinlega ekki hróflað við hinni nýgerðu lagabreytingu – eins og Sigurður Líndal hafði í heilan mánuð hvatt þingið til að gera -, og hafa einkum þær Dögg Pálsdóttir lögmaður og Herdís Þorgeirsdóttir stjórnmálafræðingur haldið þessari skoðun á loft, þó vissulega hafi verið auðveldara að ná hugsanasambandi við Dögg í þeirri umræðu. Ragnar Aðalsteinsson, handhafi „hvatningarverðlauna Samfylkingarinnar“, hefur svo blandað sér í leikinn og talið stórfelld mannréttindabrot á ferðinni, aldrei þessu vant, og geti víst hver sem er einfaldlega farið í mál og krafist atkvæðagreiðslunnar.

Fréttablaðið ræddi líka við Sigurð Líndal, fyrrverandi prófessor. Hann hefur marglagt til að fjölmiðlalögin verði felld úr gildi án þjóðaratkvæðagreiðslu. Sigurður hefði hins vegar talið „eðlilegra“ að látið hefði verið við það sitja og síðan „færi fram undirbúningur og umræða um nýja lagasetningu“. En nefndi ekki einu orði að það kæmi stjórnarskránni nokkuð við.

Horfum nú framhjá ágreiningnum um synjun laganna, og gefum okkur, rökræðunnar vegna, að réttilega hafi verið að henni staðið. Getur synjunin ein og sér leitt til þess að menn eignist beinan rétt til þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laganna? Nei, segir Vefþjóðviljinn og veit blaðið þó vel hvað stendur í 26. grein stjórnarskrárinnar. Í stjórnarskránni er veitt heimild til synjunar laga sem alþingi hefur samþykkt – og má taka fram að stjórnarskráin veitir „forseta“ heimild til að synja lögum, en heimildin er ekki til þess að „vísa lögunum til þjóðarinnar“. Gott og vel, stjórnarskráin veitir heimild til að synja lögum staðfestingar. Þegar það er komið, þá er næsta skref hennar að ákveða hvað gerist næst. Þar eru þrír kostir nothæfir. Í fyrsta lagi hefði verið hægt að ákveða að lögin færu sjálfkrafa aftur til þingsins og sem þá væntanlega gæti hnekkt synjun forsetans með auknum meirihluta atkvæða. Annar möguleiki væri sá að lögin tækju einfaldlega ekki gildi og væru úr sögunni í það skiptið. Þingið sæti þá uppi með þá niðurstöðu, þó það gæti auðvitað haldið áfram að samþykkja ný og ný lög og senda þau til forsetans í þeirri von að hann skipti um skoðun. Þriðji möguleikinn er svo að fá einhvern þriðja aðila til að höggva á hnútinn, og eins og menn vita var sú leið farin að leggja framtíðargildi laganna í atkvæðagreiðslu allra kosningabærra manna – en einnig hefði verið hægt að leggja málið í dóm einhvers annars aðila, svo sem Hæstaréttar, sem hefði að mati Vefþjóðviljans verið síðri kostur. Auðvitað má hugsa sér nær endalausa möguleika ef menn vilja – stjórnskipulega hefði út af fyrir sig verið alveg heimilt að láta bara fara fram hlutkesti um málið – en þessir þrír eru þeir sem telja má nothæfa og hafa verið notaðir hér og hvar.

Eftir að forseti Íslands synjar lögum staðfestingar þá taka þau engu að síður gildi. Hin synjuðu lög hafa sama gildi og önnur lög. Það á enginn heimtingu á því að um þau fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Menn eiga hins vegar heimtingu á því að þau gildi ekki til frambúðar án þess að slík atkvæðagreiðsla fari fram. Í þessu er mikill munur. Það er ekki brotið á „þjóðinni“ með því að hún fái ekki að fella lögin úr gildi – ef það er gert með því að alþingi felli lögin sjálft úr gildi. Umrædd stjórnarskrárgrein er hins vegar brotin ef réttilega synjuð lög standa einfaldlega áfram um ókomna tíð án þess að nokkur atkvæðagreiðsla fari fram.

Tökum dæmi. Segjum að árið 1949 hefði verið ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Gríðarleg átök hefðu orðið um málið, enn meiri en við einfalda afgreiðslu þingsins á málinu, og að endingu hefði Alþingi ákveðið að hætta einfaldlega við inngönguna og þá vitaskuld þjóðaratkvæðagreiðsluna. Dettur þá nokkrum manni í hug, að Einar Olgeirsson hefði rokið í ræðustól alþingis og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu? Að Gunnar M. Magnús hefði sprottið upp úr sæti númer sex og stofnað sérstakt félag undir kröfuna „Við viljum kjósa!“? Nei auðvitað ekki. Menn hefðu eingöngu átt kröfu til þess að ekki yrði gengið í bandalagið án atkvæðagreiðslu. Menn hefðu ekki átt sérstakan rétt til atkvæðagreiðslunnar sjálfrar. Tökum annað dæmi. Segjum að Alþingi setji lög sem ætlað er að spara fé, fella kannski niður eitthvert smáræði í ríkisrekstrinum og spara þannig tíu milljónir króna. Svo gerist það að forsetinn synjar þeim lögum staðfestingar, hann sér kannski í hendi sér að nú geti hann slegið sér upp því sparnaðartillögur eru oft óvinsælar. Mætti Alþingi þá ekki ákveða að skárra væri að hætta við tíumilljóna-sparnaðinn en að eyða tvöhundruð milljónum í atkvæðagreiðslu um hann? Auðvitað mætti Alþingi það.

Ef það væri nú rétt, að alþingi mætti ekki fella úr gildi lög sem forseti hefði synjað, þá væri sú fráleita staða uppi, að synjuð lög væru traustari í sessi en öll önnur lög landsins. Alþingi gæti afnumið öll lög landsins – nema þau! Og segjum nú að við synjun sína bendi forsetinn á einhvern galla við lögin, galla sem þingmönnum hefði yfirsést, en yrði til þess að enginn styddi lögin lengur. Mætti þá þingið ekki fella lögin úr gildi? Yrðu þau að gilda, öllum til ama, jafnvel stórfellds tjóns, í tvo þrjá mánuði fram að atkvæðagreiðslu? Nei. Við synjun laganna gerist það að lögin geta ekki gilt til frambúðar án atkvæðagreiðslu. Ekki það að lögin verða, ein laga í landinu, ósnertanleg.

Lítum líka á annað. Það er meginregla í lögfræði að yngri lög ganga framar eldri lögum. Ákvæði einna laga skarast oft á við það sem segir í öðrum lögum og ekkert er óeðlilegt við það, enda ómögulegt að fara við hverja lagasetningu í gegnum allt lagasafnið og breyta sérstaklega öllu því sem túlka mætti í ósamræmi við nýju lögin. Þess í stað taka einfaldlega við hefðbundnar lögskýringarreglur; yngri lög ganga framar eldri lögum, sérlög framar almennum lögum, og svo framvegis. En hvernig yrði staðan ef löggjafarþingið mætti ekki snerta synjuð lög? Það mætti þá ekki heldur setja nein önnur lög sem gætu gengið gegn einhverjum ákvæðum hinna synjuðu laga. Synjuðu lögin væru orðin æðsta réttarheimild landsins. Það er fráleit hugmynd, að með því að synja lögum staðfestingar, þá veiti forseti Íslands þeim beinlínis meira gildi en nokkrum öðrum.

Hugsum nú aðeins um viðbrögð stjórnarandstöðunnar, en þessu blaði þykir augljóst að þau sýni vel að í hennar huga átti þjóðaratkvæðagreiðslan fyrst og síðast að snúast um að reyna að ná höggi á pólitíska andstæðinga. Með hinu nýja frumvarpi er, eins og flestir vita, ekki aðeins verið að fella hina nýgerðu lagabreytingu úr gildi, heldur lögð til ný og breytt lög um sama efni. Breytingarnar eru þær, að tvöfaldað verður það sem svokölluð markaðsráðandi fyrirtæki geta átt í útvarps- og sjónvarpsstöðvum og svo það að lögin taka ekki gildi fyrr en á næsta kjörtímabili. Gott og vel, þetta eru breytingar sem seinka áhrifum laganna, auk þess sem þær opna fyrir möguleikann á því að nýtt þing verði til þess að þau komist aldrei til framkvæmda. Það er svo vissulega mat hvers og eins hvort þessar breytingar eru í rétta átt eða ranga og hvort þær gangi of skammt, of langt eða séu mátulegar – en breytingar eru þetta. Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson, svo tveir sérstaklega málefnalegir þingmenn séu nefndir, þeir sögðu báðir fyrir rúmum mánuði að þeir teldu eðlilegt að miðað yrði við 10 % eignaraðild þessara svokölluðu markaðsráðandi fyrirtækja, svo þeir eru væntanlega kátir núna. Af hverju ætti stjórnarandstaðan, miðað við málflutning hennar í vor, ekki að styðja þessar breytingar? Með því er auðvitað ekki sagt að hún þurfi að vilja þetta nýja frumvarp fremur en alls engin lög, en hún ætti að vilja það fremur en þau lög sem samþykkt voru í maí og eru í gildi í dag. Setjum þetta í annað samhengi. Segjum að sett yrðu lög sem hækkuðu tekjuskatt í 60 %. Vefþjóðviljinn yrði vitaskuld andvígur þeim lögum. Þeim lögum yrði svo synjað staðfestingar – af öðrum ástæðum – en tækju gildi fram að allsherjaratkvæðagreiðslu. Alþingi ákveddi hins vegar að leggja fram frumvarp sem færi með skattinn í 50 %. Ætti Vefþjóðviljinn þá að vera á móti þeirri breytingu? Eða ætti hann bara að vilja að lögin yrðu sem harkalegust svo líklegra væri að þau yrðu felld? Ætti hann kannski að leggja til að skatturinn færi í 100 % og yrði þannig borinn undir atkvæði?

Stjórnarandstaðan fullyrðir að forseti Íslands hljóti að synja nýjum lögum staðfestingar. Ef svo er, þá fara þau í þjóðaratkvæði. Ætti heiðarleg stjórnarandstaða, sem tekur málefnalega afstöðu til laga, ekki fremur að vilja að nýrri lögin tækju gildi en hin eldri? Getur verið að stjórnarandstaðan óttist, að þar sem nýja frumvarpið er mildara en hin eldri lög, að þá séu líkur á því að „þjóðin“ samþykki síðara frumvarpið? Og þess vegna verði að bera það eldra undir hana, en ekki það yngra? En ef slík hugsun ræður ferðinni, þá er stjórnarandstaðan ekki að hugsa um að „vilji þjóðarinnar“ nái fram, heldur einfaldlega að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, og meinar ekkert annað með öllum frösunum sem hún sprautar núna í allar áttir, með ákafri hjálp þeirra fjölmiðla sem telja sig hafa mikilla hagsmuna að gæta.

Og að lokum. Ef ríkisstjórnin hefði lagt til að lögin yrðu felld úr gildi og að aldrei yrði minnst á fjölmiðlalögin meir, dettur þá nokkrum manni í hug að menn hefðu haldið því fram að það væri ekki hægt? Að andstæðingar laganna myndu ræsa menn út í ofboði til að segja að það mætti ekki. Að málið væri „í höndum þjóðarinnar“.