Undanfarið hefur verið tekist á um frumvarp til laga um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum, svokallað „fjölmiðlafrumvarp“. Þingmenn, fjölmiðlar og nokkrir áhugasamir einstaklingar hafa þar lagt orð í belg, sumir mörg orð. Með frumvarpinu er stefnt að því að innleiða sérstakar samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði, enda sé hann sérstaklega mikilvægur svo sem vegna tjáningarfrelsis, lýðræðis og óþvingaðrar upplýsingamiðlunar. Vef-Þjóðviljinn er einarðlega andvígur samkeppnisreglum og vill að samkeppnisstofnun verði lögð niður, og þarf því engum að koma á óvart þó blaðið hafi því barist gegn því að settar verði slíkar auknar samkeppnisreglur. Barátta blaðsins gegn samkeppnisreglum hefur staðið í þau sjö ár sem blaðið hefur komið út, en ekki er því að leyna að blaðið hefur allt þar til nýlega talið lítinn hljómgrunn fyrir þeim málflutningi. Allt þar til fyrir skömmu hafa stjórnmálamenn og aðrir þátttakendur í þjóðmálaumræðu haldið því stíft fram að herða beri samkeppnisreglur, efla samkeppnisstofnun og taka harðar og harðar á þeim sem færa sér sterka stöðu sína á markaði í nyt. En svo er eins og þetta hafi snúist við á einu andartaki. Skyndilega eru ótrúlegustu menn farnir að tala eins og þeir hafi fallist á sjónarmið Vef-Þjóðviljans í samkeppnismálum og gera það meira að segja af talsverðum hita, án þess þó að þeir útskýri þau sinnaskipti á nokkurn hátt. Sömu menn vísa meira að segja, máli sínu til sönnunar, til skoðanakannana sem þeir segja að bendi til hins sama, að skyndilega sé áhugi fólks á vaxandi samkeppnisreglum horfinn eins og fylgi Borgaraflokksins.
„Niðurstaðan af þessum könnunum er sú að innan við 30 % kjósenda hafa kynnt sér fyrirliggjandi fjölmiðlafrumvarp og verður allt tal um „gjá milli þings og þjóðar“ að skoðast í samhengi við það. Þá virðist mega ráða af könnuninni að skoðanir manna á efnisatriðum frumvarpins geti verið svona álíka skiptar og línurnar liggja í þingsalnum…“ |
Vef-Þjóðviljinn fagnar auðvitað þessum nýju liðsmönnum, þó fögnuður blaðsins yrði vitaskuld talsvert meiri ef þeir gæfu einhverjar skynsamlegar skýringar á viðsnúningi sínum. Því er ekki að neita, að það er eitthvað óþægilegt við þá staðreynd að menn sem fyrr í vetur lögðu fram þingsályktunartillögur um að fjölmiðlar verði að „vera óháðir hver öðrum“ og töldu þá meira að segja ástæðu til að minna sérstaklega á að erlendis hefðu „verið settar skorður við eignarhaldi á fjölmiðlamarkaði til að hindra fákeppni og óeðlileg hagsmunatengsl, sem og hringamyndun“, eða stjórnmálaflokkur sem fyrir tveimur árum vildi hreinlega færa opinberri stofnun vald til að skipta fyrirtækinu Baugi upp – sem yrði aðgerð, algerlega ósambærileg við áhrif fjölmiðlafrumvarpsins þó það verði að lögum – megi nú ekki heyra minnst á það frumvarp sem liggur fyrir þinginu, og kjósi óbreytt ástand mun fremur. Vef-Þjóðviljinn varð því forvitinn um það, hvort á einni nóttu hefði orðið viðhorfsbreyting í þjóðfélaginu, hvort fólk hefði einfaldlega snúið við blaðinu og mikill meirihluti landsmanna vildi nú leyfa stórum keðjum, sem í samkeppnisfræðunum eru kallaðar markaðsráðandi, til dæmis tryggingafélögum, olíufélögum og matvörukeðjum, að eignast líka fjölmiðla og hafa með því mótandi áhrif á opinbera umfjöllun og fréttaflutning. Vef-Þjóðviljinn vill og hefur alltaf vilja leyfa slíkt og því varð hann forvitinn um það hvort sjónarmið blaðsins hefðu í raun meiri hljómgrunn en það hafði haldið. Ekki síst varð blaðið forvitið um það, hvort sú andstaða fólks við fjölmiðlafrumvarpið sem mjög er sagt frá opinberlega, kæmi til af því að fólk hefði kynnt sér frumvarpið og væri þá andvígt þeim samkeppnisreglum sem þar er gert ráð fyrir, eða hvort fólk hefði einfaldlega heyrt áhrifamikla fjölmiðla tyggja það dag eftir dag eftir dag eftir dag að til sé stórkostlega hættulegt og slæmt „fjölmiðlafrumvarp“ sem „allir“ séu á móti.
Vef-Þjóðviljinn ákvað því að kanna þetta mál með einhverjum hætti. Þar sem blaðið sjálft hefur ítrekað lýst andstöðu sinni við frumvarpið hefðu væntanlega fáir tekið mikið mark á skoðanakönnun sem það sjálft myndi gera, og ákvað það þess vegna að leita til óháðs fyrirtækis á því sviði, PARX-viðskiptaráðgjafar IBM, og fá það til að spyrja fólk nokkurra spurninga um þessi mál. Fyrirtækið gerði í síðustu viku símakönnun, þar sem svarendur voru degnir úr þjóðskrá, „lagskipt slembiúrtak sem endurspeglar þjóðina hvað varðar aldur, kyn og búsetu“. Alls voru svarendur 604.
Fyrst var kannað hversu hátt hlutfall vildi leyfa það sem áður var nefnt og spurt hvort menn væru „almennt fylgjandi eða andvíg/ur því að fyrirtæki sem talin eru markaðsráðandi, til dæmis olíufélög, tryggingafélög eða matvörukeðjur, megi eiga ráðandi hlut í fjölmiðlum sem reka fréttastofur“. Niðurstaðan varð þar sú að samtals voru 36,8 % svarenda frekar eða mjög hlynnt því að slík fyrirtæki mættu eiga slíkan hlut. Svo merkilega vildi til að því sem næst sama hlutfall, 36,4 % lýsti sig beinlínis mjög eða frekar andvígt því, 22,9 % töldust hvorki fylgjandi því né andvíg og 3,8 % neituðu að svara. Þannig virðist þeir vera jafnstórir, þeir hópar landsmanna sem vilja leyfa slík yfirráð og þeir sem vilja banna þau. Ekki er gott að skipta „hvorki né“ hópnum niður, en hann tekur að minnsta kosti ekki undir með þeirri spurningu hvort þessi fyrirtæki megi eiga ráðandi hlut í slíkum fyrirtækjum. Það er því um þriðjungur aðspurðra sem tekur undir með Vefþjóðviljanum í því atriði að heimila eigi markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga ráðandi hlut í fjölmiðlum sem reka fréttastofur.
<!––> <!––>
Þá var spurt að því, hvort menn hefðu kynnt sér fyrirliggjandi fjölmiðlafrumvarp, en blaðið hafði áhuga á að vita hvort sú andstaða sem talað er um í fjölmiðlum væri í raun andstaða við fyrirliggjandi frumvarp eða fremur andstaða við hugtak sem mikið hefur verið hamast gegn. Niðurstaðan varð sú að innan við 30 % svarenda töldu sig hafa kynnt sér frumvarpið frekar vel eða mjög vel. 4,5 % töldu sig hafa kynnt sér frumvarpið mjög vel, 24,6 % nokkuð vel en á hinn bóginn sögðust 17,9 % hafa kynnt sér það mjög illa eða alls ekki og 28,9 % sögðust hafa kynnt sér það frekar illa. 24 % gáfu upp svarið hvorki né. Það er því 29,1 % landsmanna sem hefur kynnt sér fjölmiðlafrumvarpið að heitið geti.
Enn fremur var spurt hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa ef gengið yrði til alþingiskosninga á morgun. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut fylgi 30,6 % þeirra sem afstöðu tóku, Samfylkingin 29,9 %, Vinstrihreyfingin-grænt framboð 13,7 %, Framsóknarflokkurinn 12,0 %, Frjálslyndi flokkurinn 5,6 % og 8,2 % sögðust myndu kjósa annað.
Niðurstaðan af þessum könnunum er sú að innan við 30 % kjósenda hafa kynnt sér fyrirliggjandi fjölmiðlafrumvarp og verður allt tal um „gjá milli þings og þjóðar“ að skoðast í samhengi við það. Þá virðist mega ráða af könnuninni að skoðanir manna á efnisatriðum frumvarpins geti verið svona álíka skiptar og línurnar liggja í þingsalnum, og þá er varla nein „gjá“ heldur að því leyti. Að minnsta kosti getur ekki verið neitt óeðlilegt við það að afstaða stjórnarandstöðu til mála eigi hljómgrunn hjá álíka háu hlutfalli landsmanna og kaus þá stjórnarandstöðu á þing.
Um fleira var spurt í könnuninni og verða þær niðurstöður eflaust reifaðar hér síðar. Meðal annars var spurt um afstöðu fólks til skiptingar fæðingarorlofsréttar milli foreldra og um tekjuþak á fæðingarorlof og voru þær niðurstöður Vef-Þjóðviljanum mjög að skapi. Þá var spurt um það hvort fólk teldi forseta Íslands yfirleitt hafa heimild til að neita að staðfesta lög frá Alþingi og meirihluti svarenda taldi það. Enn fremur var spurt hvort fólk teldi að hann ætti að nýta sér slíka heimild ef fjölmiðlafrumvarpið kæmi til hans, en minnihluti svarenda var þeirrar skoðunar.
En þetta er auðvitað aðeins skoðanakönnun. Þær mæla ekki annað en stundarviðhorf þeirra sem svara.