Til er skæður og illviðráðanlegur sjúkdómur og öðru hverju kemst í fréttir á Íslandi – og raunar „hvergi nema þar“, svona eins og sungið var um Emil litla í Kattholti. Þetta er sjúkdómur sem blessunarlega hefur ekki enn lagst á fólk eða búpening en alþjóðlegir samningar, einkum þó EES-samningurinn, virðast útsettir fyrir honum. Að minnsta kosti hefur EES-samningurinn margsinnis greinst með þennan alvarlega sjúkdóm, eða eins og þeir menn segja, sem gleggstir eru á sjúkdóminn: „EES-samningurinn hefur veikst og mun halda áfram að veikjast í framtíðinni.“ Eitt af því sem gerir allar lækningatilraunir flóknar er sú staðreynd að ákaflega erfitt hefur reynst af fá upplýsingar um einkenni sjúkdómsins, en þó ýmsir hafi margoft orðið til þess að slá því föstu að EES-samningurinn hafi „veikst“, þá hafa þeir gert töluvert mikið minna af því að upplýsa um það í hverju þau veikindi felist.
Á gamlársdag ræddi Morgunblaðið við Þórunni J. Hafstein lögfræðing, forstöðumann á skrifstofu EFTA í Brussel. Hún hefur undanfarin ár starfað á þeirri skrifstofu EFTA sem fjallar um flest málaflokkasvið EES-samningsins og þessi veikindi EES-samningsins, þessi sem íslenskir Evrópusinnar eru afar glöggir á, þau virðast alveg hafa farið fram hjá Þórunni, sem ekki telur heldur að stækkun Evrópusambandsins kunni að leiða til þess að samningurinn veikist. Hugsanlegt sé hins vegar að stækkunin styrki samninginn: „Ég tel að samningurinn og framkvæmd hans hafi gengið það vel og sé kominn í fastar skorður. Samskiptin við framkvæmdastjórn ESB eru ágæt og ákveðið verklag er komið á og ferli varðandi framkvæmd samningsins sem dugar vel. Ég sé ekki að stækkun Evrópusambandsins sem slík eigi eftir að breyta því á nokkurn hátt og áfram standa tveir aðilar að samningnum, ESB-ríkin og EES-EFTA ríkin þrjú. Kerfið helst eins og þetta er og samningsgrundvöllurinn er sá sami.“
Raunar er það skoðun Vefþjóðviljans að EES-samningurinn sé við góða heilsu og líttrökstuddar fullyrðingar um annað séu settar fram til þess eins að reyna að telja fólki trú um að nauðsynlegt sé að ganga lengra en gert var með EES-samningnum, þar sem hann sé „ekki lengur nægilegur“. Vefþjóðviljinn telur engin haldbær rök fyrir því að svo hafi EES-samningurinn veikst að horfa þurfi til nýrra og nærgönguli samninga við Evrópusambandið. Sama megi reyndar segja um svo margt sem Evrópusinnar segja til þess að þyrla upp ryki. Evrópusinnar vilja stundum ganga í Evrópusambandið til þess að „verja fullveldið“, og það eins þó innganga í Evrópusambandið yrði afsal en ekki ávinningur yfirráða Íslands um eigin mál . Evrópusinnar vilja stundum ganga í Evrópusambandið til þess að afnema einhverja tiltekna tolla og það eins þó að Íslendingum sé fyllilega heimilt að afnema þá þegar í stað án þess að ganga í Evrópusambandið og þá gangast undir ákvarðanir þess. Og stundum segja Evrópusinnar að nú sé EES-samningurinn orðinn svo veikur að því miður verði að semja um nýrri og nánari tengsl við Brusselstjórnina, og það eins þó þeim takist ekki að benda á nein alvarleg sjúkdómseinkenni.