Hinn 31. júlí næstkomandi rennur út kjörtímabil núverandi forseta Íslands. Að minnsta kosti einn maður, Ástþór Magnússon, hefur lýst því yfir opinberlega að hann óski eftir að verða kjörinn forseti og einnig hafa heyrst raddir um að þeir Snorri Ásmundsson myndlistarmaður og Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins hyggi á framboð ef þeim tekst að afla nægilega margra meðmælenda. Snorri hefur reyndar talað líklega um framboð en Ólafur hefur ekki minnst á neitt í því sambandi svo hann hlýtur að teljast ólíklegri af þeim tveimur. En hvað sem því líður þá er opinber umræða komin í gang og í gærkvöldi var rætt við Ástþór í kastljósi Ríkissjónvarpsins. Og, eins og fyrir fjórum árum, þá virðast fréttamönnum verða mjög annt um opinbert fé þegar kemur að forsetakosningum. Fyrir fjórum árum tilkynnti áðurnefndur Ástþór Magnússon að hann hygðist bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari og hefði hafið meðmælendasöfnun vegna þess. Hóf þá Stöð 2 nokkurs konar herferð gegn framboðsáætlunum hans og hamraði á því hvað framboð Ástþórs myndi „kosta“. Sjónvarpsstöðinni virtist hins vegar ekki koma til hugar að framboð Ólafs Ragnars kynni að „kosta“ skattgreiðendur neitt. Vefþjóðviljinn andmælti þessum skilningi Stöðvar 2 þá og sér enn ástæðu til að ræða þetta atriði. Í kastljósinu í gær fór stjórnandi þáttarins nefnilega enn að tala um það að skattgreiðendur hefðu svo mikinn kostnað af framboði Ástþórs.
Af þessu tilefni vill Vefþjóðviljinn ítreka það sem blaðið sagði fyrir tæpum fjórum árum. Eiginlega má taka það upp orðrétt, að því frátöldu að Stöð 2 er ekki enn byrjuð á umfjöllun um kostnað af framboði Ástþórs:
Ef Ástþór Magnússon býður sig fram til forseta kostar það ríki og sveitarfélög 40 milljónir króna, sagði ítrekað í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Einmitt það já, en hvað kostar það ef Ólafur Ragnar Grímsson býður sig fram?
Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort þeir tveir menn, Ástþór Magnússon og Ólafur Ragnar Grímsson, sem hafa lýst áhuga á framboði til embættis forseta Íslands nú þegar kjörtímabili núverandi forseta lýkur, láta slag standa. En hitt veit Vefþjóðviljinn að láti þeir báðir verða af því, þá hafa þeir sem frambjóðendur sömu stöðu. Hvorugur er sérstaklega í framboði gegn hinum, hvorugur er einn ábyrgur fyrir tilkostnaði og fyrirhöfn af kosningunum og hvorugur tilvalinn í embættið. |
Hefur nokkuð breyst?