Mánudagur 1. desember 2003

335. tbl. 7. árg.

Í

Í nýlegu viðtali við Liechtensteiner Vaterland sagði Hans-Adam II. að „fullveldi ríkisins og sjálfsákvörðunarréttur liechtensteinsku þjóðarinnar [væru] mikilvægari en EES-samningurinn“.

dag eru áttatíu og fimm ár liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki, og hafa menn haldið upp á ómerkilegri afmæli. Óhætt er að segja að heimt fullveldisins árið 1918 sé merkasti áfangi sjálfstæðisbaráttu landsins og skipti þar mun meira máli en til dæmis lýðveldisstofnunin árið 1944, þó því verði vitaskuld ekki neitað að af útihátíðarástæðum er sautjándi júni mun heppilegri þjóðhátíðardagur en fyrsti desember. Áttatíu og fimm ár eru vitaskuld ekki stór hluti þess tíma sem Ísland hefur verið byggt, en fram að fullveldinu árið 1918 hafði Ísland verið sett undir erlend yfirráð í hálfa sjöundu öld. Má það með öðru vera Íslendingum áminning þess að fullveldi landsins er ekki svo öruggt og sjálfsagt að óhætt sé að taka því sem gefnum hlut sem enga varðstöðu þurfi. Þvert á móti er sú varðstaða mikilvægari nú en oft áður, á þeim tímum sem fleiri og fleiri leggja fullveldi landsins sem hverja aðra umsemjanlega stærð inn í eitthvert reikningsdæmi og fá á endanum þá útkomu að það sé í lagi að fela erlendum ríkjum ákvörðunarvald um íslensk málefni svo lengi sem Íslendingar fái að selja þeim síld tollfrjálst.

Fyrir rúmum áratug veitti alþingi tilteknum milliríkjasamningi, EES-samningnum, lagagildi á Íslandi. Til þess hafði löggjafinn fulla heimild og hefur þessi samningur marga kosti í för með sér, svo sem tollfrjálsan aðgang að mörkuðum og frelsi fólks til að fara milli landa og búa og starfa þar sem því hentar. Það er því ekki að undra að margir tali vel um EES-samninginn og þá ekki síst þeir framsæknu menn sem ekki studdu hann á sínum tíma. Fólk eins og til dæmis Halldór Ásgrímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem ekki studdu EES-samninginn þegar á þurfti að halda, lætur stundum þessi misserin eins og það hafi eitt komið honum á.

Já, EES-samningurinn hefur marga kosti og þess vegna geta margir ekki hugsað sér tilveruna án hans. En samningurinn hefur líka sína galla sem ekki verður horft fram hjá. Yfir Íslendinga hellast erlendar tilskipanir sem íslenska utanríkisráðuneytið heimtar að verði „innleiddar“ þegar í stað svo Ísland fái ekki skammir hjá erlendum „eftirlitsstofnunum“. Svo rammt kveður að þessu að fyrir nokkrum árum varð Hæstarétti Íslands það á að dæma íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart íslenskum borgara fyrir þá „sök“ að hinn íslenski löggjafi hafði ekki breytt lögum í samræmi við erlenda tilskipun. Þessi dómur Hæstaréttar, sem á sér enga stoð í íslenskri lögfræði, hefur síðan verið kenndur laganemum sem stefnumarkandi vísindi og er það enn eitt dæmið um það hvernig farið getur fyrir fullveldi Íslands ef menn halda áfram að ganga um í svefni.

Þó löggjafinn hafi haft fulla heimild til að lögfesta EES-samninginn á sínum tíma þá mega menn ekki horfa fram hjá því að löggjafinn getur ekki bundið hendur þess löggjafa sem síðar situr. Ef í dag verða til dæmis sett lög þess efnis að tekjuskattur skuli afnuminn og megi aldrei leggja slíkan skatt á að nýju, þá myndi slík lagagrein auðvitað víkja fyrir gagnstæðri reglu ef slík yrði lögleidd daginn eftir. Og þó löggjafinn einn daginn veiti alþjóðlegum samningi lagagildi þá myndi lagaregla sem sett yrði daginn eftir og „bryti gegn“ samningnum, gilda og samningurinn viki að því leyti. Og að því kann að koma að jafnvel EES-samningurinn, sem sumir lofsyngja sem hinn ógurlegasta happafeng, verði að víkja með slíkum hætti. Hann kann líka að þurfa að víkja sökum þess að hinn fullvalda íslenski löggjafi geri það upp við sig að það sé íslenskur löggjafi en ekki erlendur sem setur lög á Íslandi. Íslenskur löggjafi á þess nefnilega undantekningarlaust kost að hafa erlendar tilskipanir að engu og getur ekki afsalað sér því valdi svo að gilt sé. Þó kostir samnings eins og EES-samningsins séu töluverðir þá er fullveldi landsins mikilvægara en þeir. Þó venju samkvæmt verði hátíðarhöld fullveldisdagsins í öfugu hlutfalli við mikilvægi hans í sjálfstæðisbaráttunni þá er óhætt að nota daginn með öðru til að hugleiða hvaða verð menn eru reiðubúnir að greiða fyrir þann ávinning sem hafa má af erlendum samningum. Og þá ekki síður hvaða verð menn eru ekki reiðubúnir að greiða, hversu mjög sem þeir menn hamast sem endilega vilja koma Íslandi undir erlend yfirráð eftir áttatíu og fimm ára hlé.