Helgarsprokið 30. nóvember 2003

334. tbl. 7. árg.

Þá er formlega hafinn undirbúningur fyrir jólahátíðina. Fer sá undirbúningur fram með ýmsum hætti. Sumir nota tímann til hreingerninga, aðrir láta ekki einn dag líða fram að jólum án þess að bæta á óreiðuna heima hjá sér með alls kyns glingri sem á að særa fram jólastemmninguna frægu. Vinnustaðir, eins og heimili, hafa þetta einnig hver með sínu sniði. Almenningur verður var við jólaundirbúninginn á Alþingi þegar á þessum tíma hraðað er afgreiðslu hvers frumvarpsins á eftir öðru. Mest áberandi er umræðan um fjárlögin en mikið liggur á að afgreiða fjárlagafrumvarpið fyrir komu frelsarans. Það er þó rétt að geta þess að þar er ekki bara um að ræða fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í haust, og hefði mátt gleðja heimtufrekasta barn sem til er, heldur þarf líka að afgreiða frumvarp til fjáraukalaga að ógleymdum fjölda tillagna þeim tengdum. Fyrir utan þetta mikla frumvarp eru svo óteljandi önnur frumvörp, lögð fram af ríkisstjórn eða einstökum þingmönnum. Mismikið liggur frumvarpshöfundum á að afgreiða þau mál en allt að einu er nóg að gera á Alþingi þessa dagana.

Innan um eru svo fyrirspurnir sem ekki verður með nokkru móti séð að skipti nokkru máli í nokkurri umræðu á Alþingi og sýnist sem þær séu lagðar fram eingöngu til að vekja athygli á tilteknu hugðarefni fyrirspyrjanda, eða skjólstæðings hans eða einfaldlega fyrirspyrjandanum sjálfum.

Annríki þingmanna við oft nauðsynlega en oftar ónauðsynlega lagasetningu hefur þó ekki komið í veg fyrir að þingmenn velti vöngum yfir hinu og þessu. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að gagnrýna það út af fyrir sig en þegar þingmenn komast í þrot með eigin hugsanir lítur út fyrir að fjandinn sé laus. Þingmönnum er nefnilega veitt heimild til að krefja ráðherra svara um hitt og þetta með þar til gerðri fyrirspurn sem leggja má fram á Alþingi. Segir þannig í lögum um þingsköp Alþingis: „Óski alþingismaður upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn er afhent skal forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli. Alþingismaður segir til um það hvort hann óskar skriflegs eða munnlegs svars. Stutt greinargerð má fylgja fyrirspurn ef óskað er skriflegs svars.“

Á fyrsta degi aðventu hafa nú á yfirstandandi þingi verið lagðar fram 84 fyrirspurnir þar sem skriflegra svara ráðherra er óskað og 132 fyrirspurnir sem ráðherra nægir að svara munnlega. Þá hafa verið lagðar fram á Alþingi 20 svokallaðar óundirbúnar fyrirspurnir en þeim svara ráðherrar jafnharðan. Af þessum 236 fyrirspurnum á Alþingi eru hér nokkur dæmi.

Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fannst upplagt að spyrja landbúnaðarráðherra um verðþróun á íslensku lambakjöti erlendis síðustu fimm ár. Þá vildi hún líka að ráðherrann upplýsti sig um hagnað bænda á lambakjötssölu erlendis. Vefþjóðviljinn veltir því fyrir sér hvort Bændasamtökin hefðu ekki getað svarað Önnu með skilmerkilegum hætti ef hún á þá nokkra heimtingu á svörum við þessum spurningum, sem efast má um. Einar K. Guðfinnsson er greinilega áhugamaður um presta. Hann hefur áhuga á hversu margir þeir eru, ekki bara hversu margir þeir eru núna heldur hversu margir þeir voru árið 1993 og líka árið 1998, nánar tiltekið 1. janúar það ár. Þá hefur hann áhuga á hvaða prestar eru hvað, það er að segja hversu margir eru sóknarprestar, hversu margir sérþjónustuprestar og hve margir prestar í héraði. Hér skal einnig haldið til haga áhuga Einars á þessari skiptingu árin 1993 og 1998. Einar spurði því kirkjumálaráðherra að þessu og nú hefur kirkjumálaráðuneytið svarað Einari og eins og við mátti búast var upplýsinga aflað hjá biskupi Íslands. Vefþjóðviljinn veltir því bara fyrir sér hvort Einar sé nokkuð of góður til að afla þessara upplýsinga sjálfur, að því gefnu að hann sé í sæmilegu sambandi við fulltrúa almættisins hér á landi. Jón Bjarnason hefur setið á þingi í nokkur ár en sá sig knúinn til þess 3. október í ár að spyrja viðskiptaráðherra um hvaða reglur gildi um greiðslur úr flutningsjöfnunarsjóði olíu og sements. Lög nr. 130/1994 og lög nr. 62/1973 hafa auðvitað alveg farið fram hjá Jóni enda starfar Jón bara við lagasetningu og hefur ekki velt fyrir sér sementsmálum síðan hann lagði fram þingályktunartillögu þann 4. október í fyrra um verðmyndun á sementi. Til menntamálaráðherra barst spurning frá Brynju Magnúsdóttur um ástæðu þess að ekki fá allir sem stunda háskólanám hér á landi ókeypis bókarsafnsskírteini hjá Landsbókasafni Íslands- Háskólabókasafni. Er líklegt að stutt símtal við bókasafnsvörð hefði ekki getað svarað þessari spurningu varaþingmannsins? Hér verða ekki raktar þær mýmörgu fyrirspurnir Jóhönnu Sigurðardóttur en þær hafa langflestar verið í mörgum liðum og oft verið svarað með hnausþykkum skýrslum kontórista ráðuneytanna.

Nú finnst Vefþjóðviljanum ekkert óeðlilegt við það að menn velti hinu og þessu upp í þjóðmálaumræðunni dags daglega. Það hlýtur þó að mega draga í efa réttmæti sumra þessara fyrirspurna. Bæði vegna þess að sumar eru þær þess eðlis að þeim verður ekki svarað í stuttu máli eins og lög um þingsköp gera ráð fyrir, heldur miklu frekar með viðamikilli skýrslu. Svo eru sumar spurningarnar þannig að tæplega er það eingöngu á færi ráðherra þessa lands að svara þeim og eðlilegra að leita beint til þeirra sem með málið fer. Innan um eru svo fyrirspurnir sem ekki verður með nokkru móti séð að skipti nokkru máli í nokkurri umræðu á Alþingi og sýnist sem þær séu lagðar fram eingöngu til að vekja athygli á tilteknu hugðarefni fyrirspyrjanda, eða skjólstæðings hans eða einfaldlega fyrirspyrjandanum sjálfum

Vefþjóðviljinn leggur til að næsta fyrirspurn á Alþingi lúti að kostnaði við fyrirspurnir á Alþingi.