Afnotagjöld Ríkisútvarpsins eru besti skattur Íslands. Að minnsta kosti frá sjónarhóli skattgreiðenda. Þau ganga nokkuð jafnt yfir alla – nema starfsmenn Ríkisútvarpsins því sumir þurfa að vera jafnari en aðrir – eru innheimt með mjög sýnilegum hætti og renna þangað sem þeim er ætlað. Það er kostur að afnot Ríkisútvarpsins af buddum landsmanna séu skýrt afmörkuð með þessum hætti. Það er svo annað mál að það er engin ástæða til reksturs Ríkisútvarps. Afnotagjöldin hafa hins vegar þann galla að menn geta ekki valið aðrar sjónvarpsstöðvar án þess að greiða gjöldin til Ríkisútvarpsins fyrst. Það, auk þess sem Ríkisútvarpið birtir auglýsingar, gerir rekstur einkarekinna stöðva erfiðan.
Ef fjármagn til annarra verkefna hins opinbera væri innheimt með sama hætti fengi hvert hver einstaklingur til dæmis þessa greiðsluseðla inn um lúguna í hverjum mánuði:
Afnot íslensks landbúnaðar af veskinu þínu: kr. 4.893.
Afnot stúdenta og kennara við Háskóla Íslands af launaumslagi þínu: kr. 1.885.
Afnot vel launaðra manna í fæðingarorlofi af tekjum þínum: kr. 417.
Afnot Samkeppnisstofnunar af heimilispeningunum: kr. 65.
Afnot Byggðastofnunar af ferðasjóði fjölskyldunnar: kr. 122.
Afnot Útflutningsráðs af sparifé þínu: kr. 106.
Þetta myndi kannski verða til þess að þeir sem réttlæta aukin og ný ríkisútgjöld til einstakra mála með því að „ríkið muni nú ekki um þetta í samanburði við allt annað sem það gerir“ öðluðust skilning á því að skattarnir urðu einmitt svona háir vegna þess að þessi rök hafa verið notuð of oft.