Í stuttum umræðum í vikunni um fyrirspurn eins þingmanns vinstri grænna, Jóns Bjarnasonar, kristallaðist sú ógn sem skattgreiðendum steðjar af örlæti þingmanna með almannafé. Þingmaðurinn spurði spurningar um það hvað orðið hefði um 5 milljóna króna stuðning við kræklingaeldi sem ákveðinn hefði verið í fjárlögum þessa árs. Sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, greindi við svo búið frá því hvernig fjárhæðinni hefði verið og yrði varið. Allt er þetta fremur sakleysislegt og virðist að auki snúast um upphæðir sem geta litlu breytt um skattgreiðslur almennings. Raunin er þó önnur, því fyrirspurnin er eitt lítið dæmi um pot og hagsmunagæslu þingmanns, en langt því frá að vera eina dæmið. Fyrirspyrjandinn var ekki heldur eini þingmaðurinn sem vildi líta vel út í augum hagsmunaaðila, tveir þingmenn Frjálslynda flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson og Guðjón A. Kristjánsson, stukku á vagninn. Og vitaskuld vildu allir þessir þrír þingmenn aukna ríkisstyrki við atvinnugreinina.
Það sem þó lýsti best þeirri ógn sem skattgreiðendum stafar af slíkum mönnum mátti heyra í frammíköllum þingmanna þegar sjávarútvegsráðherra talaði. Sjávarútvegsráðherra reyndi að útskýra að sjóðir ráðuneytisins væru ekki eins digrir og fyrirspyrjandi virtist ætla, en þá gjömmuðu þingmenn frammí og fyrirspyrjandi sagði að ráðherrann ætti „alveg morð fjár“. Þetta lýsir ágætlega viðhorfi þeirra þingmanna sem sækja af hörku í vasa skattgreiðenda, en það er líka lýsandi fyrir vanda skattgreiðenda að enginn þingmaður skyldi kveða sér hljóðs og mótmæla því að kræklingarækt skuli yfirleitt fá ríkisstyrk.
ÍÍ dag verður haldin mikil flugsýning yfir Reykjavík til að minnast þess að hundrað ár eru liðin frá fyrsta flugi Wright-bræðra. Þeir bræður munu ekki hafa haft „svartan kassa“ með sér í vélinni og því hafa eðlilegar áhyggjur Wilburs ekki varðveist:
Said Wilbur Wright: ‘Oh, this is grand, but Orville, you must understand. We’ve discovered all right the secret of flight. The question is, how do we land?’ |