Helgarsprokið 2. nóvember 2003

306. tbl. 7. árg.

Á flokksþingi Samfylkingarinnar fékk formaður flokksins að halda ávarp og eins og gengur kenndi í ávarpinu ýmissa grasa. Farið var vítt yfir sviðið og margt rætt og það sem meira er, sumt var þannig að hægt er að taka undir það. Sérstaka athygli hefur vakið sá kafli í ræðu Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann fjallaði um heilbrigðismál. Þar segir hann meðal annars að miklu fé sé varið til þessa málaflokks og að við „þurfum ekki endilega aukið fjármagn en við þurfum sárlega breytta stefnu“, og verður fróðlegt að sjá hvort Samfylkingarmenn munu vinna í anda þessara orða á Alþingi, til að mynda við afgreiðslu fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps. En hvað um það, þessi stefnubreyting á að mati Össurar að felast í því að auka möguleika einkaaðila til að bjóða þjónustu á þessu sviði og hann lýsir þeirri skoðun sinni að ríkið þurfi að vera kaupandi en það þurfi ekki endilega að vera seljandi. Eða með öðrum orðum, ríkið á að greiða fyrir þjónustuna, en það þurfa ekki endilega að vera ríkisstarfsmenn og ríkisfyrirtæki sem veita hana.

„Nánar til tekið kusu 307 í þeirri kosningu þar sem þátttakan var mest, sem er um 10% minni þátttaka en á síðasta flokksþingi Framsóknar- flokksins, þar sem þó var ekkert að gerast…“

Þessi ræða Össurar hefur verið túlkuð sem merkileg stefnubreyting Samfylkingarinnar og gott ef ekki tímamót eins og gjarna er gert. Líklega spilar skammtímaminni að einhverju leyti inn í þá túlkun, því í stefnuskrá Samfylkingarinnar var áður en flokksmenn mættu til þessa þings þegar búið að opna á verktöku og rekstur einkaaðila og í stefnuskránni sagði að rekstrarform þyrfti að velja með tilliti til aðstæðna hverju sinni. En þó að þannig sé ekki um stefnubreytingu að ræða má halda því fram að talsmenn flokksins hafi hingað til haft afar hljótt um þessa stefnu og miðað við umræður í kosningabaráttunni síðasta vor má jafnvel efast um þeir hafi vitað af henni. Þeim var að minnsta kosti ekki mikið í mun að kjósendur vissu af henni, en töldu stundum ástæðu til að minna kjósendur á að sá vondi flokkur Sjálfstæðisflokkurinn vildi opna meira fyrir einkaframtak í þessum málaflokki. Nú er hins vegar langt til kosninga og þá hafa menn tekið sér tak og ákveðið að ræða mál sem þeir óttast að verði óvinsælt til skemmri tíma litið, en sem þeir vita jafnframt innst inni að er nauðsynlegt ef ætlunin er að veita góða þjónustu á þessu sviði.

Vefþjóðviljinn hefur ítrekað bent á að bæði á sviði heilbrigðis- og menntamála ber brýna nauðsyn til að breyta áherslum og hleypa markaðsöflunum að í auknum mæli. Þau hafa svo sem verið til staðar, en hlutur þeirra hefur verið afar lítill og hið opinbera hefur verið ótrúlega tregt til að losa um tökin á þessum sviðum, sem lunginn af skattfé landsmanna rennur þó til. R-listinn hefur til að mynda ekki mátt heyra minnst á einkarekna skóla og gert allt sem hann hefur talið sér stætt á til að kreista líftóruna úr þeim sem þegar starfa. Og í Hafnarfirði höfuðvígi jafnaðarmanna eins og Össur kallaði bæinn í ræðu sinni á föstudag hefur nánast verið gengið milli bols og höfuðs á þeim sem reyndu fyrir sér í einkarekstri. Það á eftir að koma í ljós hvort ræða Össurar á eftir að breyta einhverju í raun um áherslur Samfylkingarinnar í þessum málaflokkum, en full ástæða er til að vona það besta því óskandi væri að Samfylkingin léti af vinstri kreddunum og færðist ögn til í hinu pólitíska litrófi. Tíminn mun leiða það í ljós, en í því eins og öðru verður flokkurinn metinn af verkum sínum en ekki orðum.

Annað sem vakti athygli þeirra sem fylgjast með stjórnmálum – auðvitað þó ekki fréttamanna – er fjöldi þeirra sem sótti samkomu Samfylkingarinnar. Eða öllu heldur skortur á fjölda. Á fimmtudaginn sagði á heimasíðu flokksins að 700 flokksmenn ætluðu á flokksþingið, sem hefði þýtt að flokkurinn hefði getað státað af næst stærsta aðalfundi stjórnmálaflokks hér á landi og hefði náð um helmingi af fundarsókn stærsta stjórnmálaflokksins. En eitthvað virðist hafa komið upp á, því að þrátt fyrir að samfylkingarmenn eins og aðrir hafi allt fram á síðustu stundu búist við harðri baráttu um eitt valdamesta embætti flokksins kosningu sem hefði dregið fram styrkleika ólíkra arma flokksins mættu ekki nema rúmlega 300 til að taka þátt í kosningunni. Nánar til tekið kusu 307 í þeirri kosningu þar sem þátttakan var mest, sem er um 10% minni þátttaka en á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, þar sem þó var ekkert að gerast og í raun ekki verið að kjósa um nokkurt embætti sem máli skipti. Þessi rýra þátttaka á flokksþinginu er sem sagt ekki alveg í samræmi við fréttir Samfylkingarinnar og ekki heldur í samræmi við frásagnir talsmanna flokksins. Skýringin er ef til vill sú að það er lítið varið í það fyrir flokk sem telur sig vera kominn upp að hliðinni á stærsta stjórnmálaflokknum og telur sig svo miklu stærri en aðrir stjórnarandstöðuflokkar á Alþingi að hann þurfi ekki að taka tillit til þeirra að halda rýrara flokksþing en Framsóknarflokkurinn.