Ekki hefði ég fengið vinnu í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn vorið 1945 ef þeir hefðu verið búnir að finna upp kennitöluna. Í umsókn um starfið gat ég þess eins að ég hefði unnið í verksmiðjunni á Ingólfsfirði árið áður og væri í menntaskólanámi, en námsmenn gengu fyrir með vinnu í ríkisverksmiðjunum. Vinnuna fékk ég nýorðinn fimmtán ára, en sextán ár voru lágmarksaldur. |
– Magnús Óskarsson, Með bros í bland – minningabrot. |
E
kki tóku allir kennitölunni fagnandi og ýmsir, sem þó höfðu aldrei hugsað sér að stelast í vinnu í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn, töldu mjög vegið að einkalífi sínu ef þeir þyrftu að gefa upp fæðingarár sitt í tíma og ótíma. Að vísu er ekki gott að segja hvers vegna fæðingarár er mörgum slíkt feimnismál og eiginlega hefði verið mun nær að þeir sem álíta að fæðingarstund segi töluvert um persónuleika fólks hefðu látið í sér heyra, en það er annað mál. En kennitalan vann og vart líður sá dagur þar sem almennur borgari gefur öðrum ekki upp fæðingardag sinn og ár, annað hvort með því að skrá sig og viðskipti sín sérstaklega eða þá með því einfaldlega að greiða með greiðslukorti, þar sem upphleypt kennitalan brosir við hverjum manni.
Eins og sjá má er John Gilmore ákaflega traustvekjandi maður. |
Í nýjasta hefti bandaríska tímaritsins Reason er fjallað um milljarðamæring nokkurn, John Gilmore að nafni, en hann hefur stefnt tveimur flugfélögum og alríkisstjórninni vegna þess að honum var ekki hleypt um borð í flugvélar félaganna eftir að hafa neitað að sýna skilríki á flugvellinum. Gilmore segist trúa því að flugfélögin hafi í raun ekki sett þessa reglu sjálf heldur sé það alríkisstjórnin sem hafi óskað eftir því að farþegar sýni skilríki á flugvöllum. Og það vill hann ekki gera og telur með þessum reglum brotið á ýmsum réttindum sínum, svo sem ferðafrelsi og rétti til einkalífs.
Hér á landi er töluvert kvartað yfir því að fólk sé spurt að kennitölu ef það leigir sér kvikmynd eða pantar pizzu. Oft heyrast kröfur um að hið opinbera eigi að taka á þessum viðskiptaháttum og banna fyrirtækjunum að krefjast slíkra upplýsinga. Vefþjóðviljinn er ekki samþykkur slíkum kröfum. Viðskipti eiga að vera frjáls og ef viðskipti eru frjáls þá er hverjum aðila þeirra heimilt að setja hver þau skilyrði sem honum sýnist og svo ræðst það einfaldlega hvort um semst. Ef myndbandaleiga neitar að lána manni spólu nema hann fari úr fötunum og syngi Óðinn til gleðinnar, þá það. Þá reynir bara á hversu mikið manninn langar að sjá myndina. Ef maður neitar að leigja sér spólu nema eigandi leigunnar uppfylli einhver álíka skilyrði, þá það. Þá reynir bara á hversu mikið eigandann langar í peninga mannsins. Og svo framvegis. Í frjálsum viðskiptum geta menn sett hvaða skilyrði sem þeim sýnist.
Þetta á við um fleira en sýningu skilríkja og undarlegan söng. Ef manni líkar ekki við þau skilyrði sem gagnaðilinn býður, þá á hann þess kost að hafna viðskiptunum. En hann á þess ekki kost að þvinga hinn aðilann til að falla frá skilyrðunum. Ef til dæmis maður ákveður að opna veitingahús og banna þar reykingar, þá getur reykingamaður einfaldlega ákveðið að stíga ekki fæti sínum inn á þann stað. En hann á enga kröfu til þess að veitingamaðurinn leyfi reykingar. Ekki frekar en reyklaus frekja gæti bannað veitingamanni að leyfa reykingar, og svo framvegis.
Í frjálsum viðskiptum eiga menn engan rétt á því að vera ekki beðnir um hvaða upplýsingar sem hinn aðilinn er forvitinn um. Menn eiga eingöngu rétt á því að efna ekki til viðskiptanna. Og ef fólk gerði meira af því, þá er ekki að efa að fyrirtæki reyndu að uppfylla þær óskir eins og aðrar. Ef fólk gerði meira af því að hætta við að leigja myndir eða panta pizzur þegar fyrirtækin stæðu fast á kröfu sinni um kennitölur, þá myndu fyrirtækin væntanlega laga sig að því. Það er hin eðlilega leið til að berjast gegn forvitni sem mönnum líkar ekki.