Við eigum að herja á ríkisvaldið á öllum vígstöðvum og gefa því engin grið. Hins vegar megum við aldrei missa sjónar á lokatakmarkinu í hafsjó skriffinnsku og lagabókstafa. Lokatakmarkið er sósíalisminn, þ.e.a.s. samfélag jafnréttis og frelsis, þar sem konur jafnt sem karlar eru lausar undan arðráni og kúgun í hvaða mynd sem er. Fyrr tölum við ekki um sósíalisma. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Þjóðviljanum 1977. |
Hvernig ætli það sé að vera alla ævina, ár frá ári, dag frá degi, skoðanakönnun frá skoðanakönnun, á harðahlaupum undan eigin sannfæringu? Það liggur auðvitað beint við að spyrja ýmsa félagsmenn í Samfylkingunni að þessu en gallinn er sá að þegar sá hópur er spurður er ekki hægt að ætlast til að fá sama svarið tvo daga í röð.
Merki Samfylkingarinnar kemur að góðum notum á kosningahátíðum flokksins um land allt. |
Þingmaður Kvennalistans Ingibjörg Sólrún Gísladóttir studdi ekki aðild Íslands að EES samningnum þegar greidd voru atkvæði um hann á Alþingi árið 1993. Hún fór hins vegar fögrum orðum um samninginn í ræðu sinni á vorþingi Samfylkingarinnar nú á föstudaginn. „Þangað höfum við þvert á móti sótt aukið svigrúm til athafna og réttarbætur á fjölmörgum sviðum,“ sagði hún í ræðunni. Þessi fyrrum aðalræðumaður á stofnfundi samtaka gegn aðild Íslands að EES samningum var mætt í Silfur Egils á Skjá 1 í gær og lýsti samningum með þessum orðum: „Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu, hún hefur skilað okkur miklum ávinningi. Það frelsi og frjálsræði sem að því fylgdi í efnahagsmálum og atvinnumálum, þær réttarbætur sem því fylgdi á mörgum sviðum, hefur skilað okkur miklum ávinningi.“
Já svo er það þetta með frelsið og frjálsræðið. „Ég held að samkeppni sé dýr og almennt til leiðinda,“ sagði Ingibjörg Sólrún í ræðu í borgarstjórn um árið.
Árið 1991 var einnig kosið til Alþingis og þar var Ingibjörg einn af frambjóðendum Kvennalistans en sá flokkur var mjög á móti fyrirhuguðum samningum um álver við erlend fyrirtæki. Í sjónvarpi á kosninganótt þegar fyrir lá að ný vinstri stjórn yrði vart mynduð án þátttöku Kvennalistans kokgleypti Ingibjörg stefnu Kvennalistans í málinu og lýsti því yfir að fyrir ráðherrastóla væri Kvennalistinn reiðubúinn að samþykkja álver. Í atkvæðagreiðslu í borgarstjórn um ábyrgðir borgarinnar á lánum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar í vetur greiddi Ingibjörg svo atkvæði með ábyrgðinni en sagðist gera það með „hnút í maganum“.
Á dögunum kom út skýrsla um íslensk efnahagsmál á vegum OECD. Í skýrslunni var mælt með því að skatthlutföll yrðu lækkuð. Að því tilefni hélt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því fram í fréttum Ríkisútvarpsins síðastliðinn fimmtudag að í skýrslunni væri ekki lagt til að almennir skattar lækkuðu. Í Silfri Egils í gær sagði hún hins vegar: „Það var nú líka að koma út þessi skýrsla hjá OECD sem taldi að það væri svigrúm til skattalækkana þrátt fyrir þær framkvæmdir sem framundan eru.“
Og af því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var valin forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar eftir opnar og lýðræðislegar umræður og kosningu á meðal almennra félagsmanna í Samfylkingunni ásamt afar nánu samráði við allar helstu stofnanir flokksins var samþykkt á vorþinginu sú stefna að: „Samfylkingin vill leysa af hólmi forgang hinna fáu með lýðræðislegum stjórnarháttum þar sem ákvarðanir eru teknar eftir umræðu og samráð.“ Enda leiddu þingmenn flokksins allt málefnastarf á vorþinginu og tryggðu þannig aðkomu hins almenna flokksmanns að stefnumótun flokksins. Ekki má svo gleyma því að Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin vilja opið bókhald stjórnmálaflokka en að sjálfsögðu hafa hvorki R-listinn né Samfylkingin opnað bókhald sitt.
Stjórnmálaflokkarnir brydda nú upp á ýmsu óvæntu til að laða að kjósendur þegar þeir opna kosningaskrifstofur sínar. Framsóknarflokkurinn auglýsti opnunarhátíð kosningarskrifstofu sinnar um helgina og tilkynnti að þar yrðu trúðar fyrir börnin. Samfylkingin auglýsti líka vorfund sinn um helgina en þar voru trúðarnir ekki auglýstir sérstaklega.