Ígær fjallaði Vefþjóðviljinn lítillega um einn margra vonarpeninga Samfylkingarinnar en sá merki flokkur virðist vilja bjóða fram undir forystu næstum hvers sem er nema þá helst núverandi forystu sinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er vitaskuld ekki sú eina úr hópi fyrrum þingmanna Samfylkingarflokkanna sem reynt er að fá til að koma í staðinn fyrir núverandi forystu flokksins. Þannig hefur einnig verið talað um Jón Baldvin Hannibalsson, Svavar Gestsson og Helga Seljan í þessu sambandi og Vefþjóðviljinn leyfði sér einnig að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að benda á stjórnmálamann sem blaðið hefur lengi borið fyrir brjósti, Ólaf Ragnar Grímsson fyrrverandi fjármálaráðherra, en þingframboð hans er að því leyti líklegra en hinna þriggja að hann hefur aldrei lýst því yfir að þingframboð að ári komi ekki til greina af hans hálfu. Enn sem komið er Ólafur Ragnar því líklegastur þeirra fjögurra til framboðs og er ekki að efa að það yrði Samfylkingunni gríðarleg lyftistöng að fá svo snjallan mann í sinn góða hóp.
Talsverður hópur manna – það er að segja Ámundi Ámundason og Jakob Frímann Magnússon – sem fjölmiðlamenn kalla gjarnan „stuðningsmenn Jóns Baldvins Hannibalssonar“, hefur undanfarin ár barist mjög fyrir heimkomu umrædds sendiherra og endurtekinnar þátttöku hans í stjórnmálabaráttunni enda skilaði sendiherrann Alþýðuflokknum af sér með rúmlega 11 % fylgi sem er mun meiri stuðningur en Alþýðuflokkurinn nýtur í dag. Hins vegar virðist nú með öllu mega útiloka endurkomu Jóns Baldvins því hans bíður nú mikil þolraun á öðrum vettvangi.
Fréttir hafa nefnilega borist af því að nú verði sótt að Jóni Baldvini með ritun óvæginnar ævisögu hans. Hefur sjálf Kolbrún Bergþórsdóttir verið fengin til rita bókina og sést þá að nú stendur til að fletta ofan af Jóni Baldvini. Er nú ljóst að ekki verður dregin upp nein glansmynd af sendiherranum heldur farið af nákvæmni yfir öll hans verk. Sennilega verður þetta óvægnasta ævisaga síðari ára – nema ef vera kynni hið miskunnarlausa ritverk Dags B. Eggertssonar, „Ævisaga Steingríms Hermannssonar, I-XXIX. bindi, auk viðauka“.
En ævisaga Jóns Baldvins er löngu tímabær. Fólk veit nefnilega svo lítið um hann og hans feril. Eða viðhorf hans til manna og málefna. Þá verður ekki síður spennandi að fá að gægjast inn í heimilislíf sendiherrans en eins og menn vita hafa Jón Baldvin og kona hans jafnan verið mjög áfram um að halda einkalífi sínu utan kastljósa fjölmiðlanna. En öll vígi falla um síðir.