Þeir sem fylgdust með útsendingum af landsfundi Sjálfstæðisflokksins hér á vefnum urðu vitni að nokkrum umræðum um fæðingarorlof í gær. Á fundinum var lögð fram tillaga um að setja hámark á félagslegar bætur til fólks í fæðingarorlofi. Í dag er það svo að bætur í fæðingarorlofi eru tekjutengdar. Þó ekki tekjutengdar á sama hátt og flestar aðrar bætur. Vaxtabætur, barnabætur, niðurgreidd námslán og húsaleigubætur eru tekjutengdar með þeim hætti að því hærri tekjur sem menn hafa því lægri bætur fá þeir. Aðrar bætur, eins og til dæmis atvinnuleysisbætur, eru hinar sömu til allra, óháð þeim tekjum sem menn hafa haft.
En félagslegar bætur til fólks í fæðingarorlofi hækka eftir því sem menn hafa hærri tekjur! Einstæð móðir með 150 þúsund krónur í mánaðarlaun fær samtals 720 þúsund krónur í fæðingarorlofi. Hjón með 500 þúsund krónur hvort í mánaðarlaun fá hins vegar samtals 3,6 milljónir króna í fæðingarorlofsbætur. Þetta einstæða fyrirkomulag bótakerfsins var sumsé til umræðu á landsfundinum. Væri ekki eðlilegt að setja þak á mánaðarlegar bætur til hvers og eins? Til dæmis 200 þúsund krónur á mánuði? Þætti einhverjum það naumt skammtað? Jú, reyndar kom það á daginn því fjármálaráðherra þjóðarinnar beitti sér nokkuð í þessum umræðum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Kom þar skýrt fram hjá ráðherranum að hann teldi það mjög eðlilegt að hinir tekjuhæstu fengju hæstu bæturnar þar sem þeir greiði hæstu skattana. Geir H. Haarde þykir með öðrum orðum ekkert athugavert við það að skrifa undir margmilljóna velferðartékka til hátekjufólks og er algerlega andvígur því að setja nokkurt þak á þessar bætur. Því hærri bætur til hátekjufólksins því betra!
Einhvern tímann var rætt um það í Sjálfstæðisflokknum og víðar að félagsleg aðstoð ætti ekki að vera fyrir fullfrískt fólk. Nú er það hins vegar orðið eitt helsta baráttumál fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að félagsleg aðstoð sé ekki aðeins fyrir fullfrískt heldur einnig forríkt fólk.
Ef ráðherrann ætlar að vera samkvæmur sjálfur sér má væntanlega gera ráð fyrir að hann beiti sér fyrir því að atvinnuleysisbætur fylgi tekjum manna þannig að forstjórinn með 1 milljón á mánuði haldi þeim launum missi hann vinnuna og sjúkraliðinn haldi sínum 100 þúsund kalli. Ef þessi nýja stefna Útgjalda-Geirs verður ofaná og menn fara að fá til baka frá velferðarkerfinu í hlutfalli við það sem þeir greiða í skatta hljóta allir skattgreiðendur að fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði en ekki aðeins þeir sem eignast börn.
Með þessum yfirlýsingum sínum á landsfundinum er fjármálaráðherrann kominn inn á nýjar brautir. Það er ekki aðeins nýtt að fjármálaráðherra færi rök fyrir því í fúlustu alvöru að velferðarkerfið eigi fyrst og fremst að vera fyrir hátekjufólk heldur, sem er öllu alvarlegra, að hann virðist ekki telja neina ástæðu til að hafa hemil á ríkisútgjöldum.