Síðast liðinn laugardag rifjaði VefÞjóðviljinn upp sumt af því sem Ronald Reagan áorkaði sem forseti Bandaríkjanna og leiðrétti nokkrar kunnar missagnir vinstri manna. Tilefni þessara skrifa var að nú í mánuðinum eru tuttugu ár frá því umfangsmiklar skattalækkanir Reagans hófust. Á laugardaginn voru meðal annars bornar saman nokkrar staðreyndir úr efnahagslífi Bandaríkjanna frá tíð Jimmy Carters og Reagans, sem tók við af honum. Sumir þeirra sem viðurkenna ef til vill að Carter hafi ekki haldið rétt á málum eru þó þeirrar skoðunar að flokksbróðir hans Bill Clinton hafi staðið sig afar vel í efnahagsmálum, og meðal annars þess vegna eigi að fyrirgefa honum eitt og annað úr einkalífinu. VefÞjóðviljinn er almennt ekki áhugasamur um einkalíf forseta og vildi jafnvel óska þess að sumir þeirra héldu því alveg fyrir sig. Árangur í efnahagsmálum er annað mál og þess vegna er ekki úr vegi að bera saman nokkur atriði frá stjórnartíð Reagans og Clintons.
Á níunda áratugnum voru skattar lækkaðir verulega, en á tíunda áratugnum þurftu Bandaríkjamenn að þola umtalsverðar skattahækkanir. Þá má minna á að hugmyndir Reagans um ríkisvaldið voru að það ætti að halda sig sem mest til hlés þegar kemur að atvinnulífinu, en Clinton lýsti þeirri fyrirætlan sinni að hann myndi verða sem leysigeisli um allt hagkerfið yrði hann kosinn forseti. Og hvor leiðin skyldi hafa gagnast betur? Hagvöxtur er eins og gefur að skilja vinsæll mælikvarði á efnahagsárangur og í tíð Reagans var hann að meðaltali 3,2%, jafnvel þó fyrstu tvö árin séu tekin með, en þau ár var Reagan að kljást við háa verðbólgu og samdrátt sem hann hlaut í arf frá Carter. Clinton, sem tók við í uppsveiflu en ekki samdrætti, skilaði að meðaltali 2,5% hagvexti.
Meðal fjölskyldutekjur í Bandaríkjunum lækkuðu um 5,5% að raunvirði á tíunda áratugnum frá hámarki sínu árið 1989. Vöxtur þessara tekna var 11% í tíð Reagans. Framleiðni jókst um 0,4% á ári í stjórnartíð Clintons, en um 1,5% í tíð Reagans. Svipaða sögu er að segja um fjölgun starfa. Í tíð Reagans fjölgaði störfum um 2% á ári, en um 1,1% á meðan Clinton fór sem leysigeisli um hagkerfið – og að því er virðist brenndi annan hvern vaxtarsprota sem á vegi hans varð. En þrátt fyrir þennan árangur Reagans kunna þeir sem eru áhugasamir um að ríkið fá sem mestar skatttekjur að óttast að skattalækkanir Reagans hafi orðið til þess að skatttekjur hafi vaxið hægar á níunda áratugnum en eftir skattahækkanir tíunda áratugarins. Raunin er þó sú að skatttekjur jukust hraðar eftir skattalækkanir Reagans en skattahækkanir tíunda áratugarins. Það kann að koma á óvart að lægri skattar hafi skilað meiri tekjum, en ástæðan er meðal annars sú að skattalækkun hleypir krafti í atvinnulífið, eykur hagvöxt og gerir fólk viljugra til að greiða skattinn en dregur úr líkum þess að það reyni að bjarga fjármunum sínum frá skattheimtumönnunum.