Fimmtudagur 7. september 2000

251. tbl. 4. árg.

Því er stundum haldið fram að það fáist ekki lengur almennilegir menn til þingsetu og það sé ólíku saman að jafna liðinu sem situr á þingi nú og valmennunum sem gerðu það áður. Líklega verður þó hljótt um þessa kenningu á næstunni því Jón Ármann Héðinsson fyrrverandi alþingismaður afsannaði hana með grein sem birtist í Morgunblaðinu í fyrradag um sjávarútvegsmál. En það er þó ekki boðskapur Jóns Ármanns og sjávarútvegsmál sem Vefþjóðviljinn staldrar við að þessu sinni heldur ný baráttutækni vinstri manna. Jón vitnar nefnilega í svonefnda álagningarskrá og segir að samkvæmt upplýsingum þaðan geti ekki staðist að nafngreindur einstaklingur geti greitt fyrir nokkrar utanlandsferðir sem sá hinn sami fór í. Ögmundur Jónasson alþingismaður ritaði einnig grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem hann taldi tvo nafngreinda menn vart geta talist marktæka í umræðum um efnahagsmál þar sem þeir hefðu – samkvæmt álagningarskrá – svo háar tekjur. Ögmundur bætti svo um betur í Degi í fyrradag með því að segjast í fljótu bragði ekki sjá að nafngreindur einstaklingur „sé aflögufær til að kaupa ferðaskrifstofuna [Samvinnuferðir-Landsýn] miðað við þær tekjur sem hann hafði samkvæmt síðasta skattframtali“.

Látum það liggja á milli hluta þótt Ögmundur sé andvígur því að láglaunamenn kaupi hlut í fyrirtækjum. Það er ekkert nýtt að Ögmundur vinni gegn almenningi. Hitt er öllu verra að upplýsingar úr álagningarskrá eru nú notaðar gegn mönnum í almennri umræðu. Fram að þessu hefur birting skrárinnar aðallega fullnægt hnýsni manna en nú eru „upplýsingar“ úr henni nýttar til að berja á fólki í blöðunum. Og það er vandlifað þegar Ögmundur og álagningarskráin eru annars vegar, menn mega hvorki vera með of háar né of lágar tekjur.

Í sjónvarpsþættinum Deiglunni á dögunum taldi Össur Skarphéðinsson mikilvægt fyrir Íslendinga að ganga í ESB til að fá að taka þátt í þeim ákvörðunum sem teknar eru í Brussel. Spurður um dæmi þess að Íslendingar hefðu ekki fengið að vera með í ráðum um mál sem varða Ísland stóð formaður Samfylkingarinnar hins vegar á gati og gat ekki nefnt neitt slíkt dæmi. Og hefur ekki enn. Össur gat heldur ekki útskýrt það sem Guðni Ágústsson benti á í þættinum að þau þrjú Evrópulönd sem eru meðal þeirra fimm þjóða heims þar sem lífskjör eru best eru Noregur, Sviss og Ísland. Fer sú staðreynd enda ekki saman við þá kenningu Össurar að þær þjóðir, sem standa utan við ESB, muni lifa við sult og seyru.

Í raun staðfesti Gerhard Schröder kanslari Þýskalands það í heimsókn sinni hingað til lands í gær að Íslendingar þurfa ekki að kvíða því að verða hornreka þótt þeir kjósi að standa utan ESB. Kanslarinn telur engin vandkvæði á því að eiga gott samstarf og samráð við Ísland utan ESB eftir sem áður. Hann gat þess einnig að Íslendingar gætu hvenær sem er gengið í sambandið. Ætti það að róa þá sem vilja helst ganga í sambandið á hádegi í dag þar sem við séum að „missa af lestinni“.