Laugardagur 10. júní 2000

162. tbl. 4. árg.

Fyrir tæpum þremur árum birti Vef-Þjóðviljinn graf sem sýndi blaðasíðufjölda í B-deild stjórnartíðinda frá 1944 til 1996. Í B-deild stjórnartíðinda eru birtar nýjar reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Stærð B-deildarinnar segir auðvitað ekki alla söguna um umfang reglugerðaríkisins en getur gefið ákveðna vísbendingu um þróunina. Eins og sjá má á grafinu hér að neðan var umfangið nokkuð stöðugt frá 1944 til 1970 eða um 500 síður á ári. Um 1970 seig verulega á ógæfuhliðina og blaðsíðufjöldinn hefur ekki farið undir 1.000 á ári og á síðasta ári var enn eitt metið slegið þegar síðurnar voru 2.860.

Lævíslegar reglur og tilmæli til borgaranna hafa í vaxandi mæli leyst skatta af hólmi sem helsta tæki stjórnmálamanna til að skipta sér af okkur. Auðvitað eru reglurnar ætíð settar undir því yfirskini að vernda okkur borgaranna. Hver vill andmæla reglum sem settar eru til að vernda hagsmuni neytenda eða umhverfisins eða til að gæta jafnréttis kynjanna? Þessar reglur eru þó eins og önnur ríkisumsvif markaðar af þrýstingi frá hagsmunahópum. Ýmis eftirlitsiðnaður hefur til dæmis hagsmuni af því að hafa sem viðamestar reglur. Það þarf að fylgjast með því að þessum reglum sé fylgt. Samkeppnisstofnun hefur hagsmuni af því að settar séu reglur til að „vernda neytendur“. Þessi misserin spretta upp fyrirtæki og stofnanir sem sinna reglum um umhverfismál, t.d. svonefndu umhverfismati. Jafnréttisráð er vafalaust ekki áhugalaust um að hér séu reglur um jafnrétti kynjanna. Hver ætli hafi svo eftirlit með því að þessum reglum sé framfylgt?