Það hlakkar í ýmsum vegna ófara nokkurra bandarískra fyrirtækja sem eiga rætur að rekja til óheiðarleika stjórnenda þeirra. Hafa menn jafnvel haft á orði að þetta sýni og sanni að kapítalisminn sé ekki skárri en kommúnisminn! Þá gleðjast hinir sömu ekki síður vegna verðfalls á hlutabréfamörkuðum um allan heim.
Verðsveiflur á hlutabréfamörkuðum eru þó ekki nýjar af nálinni heldur fremur einkenni slíkra markaða. Það er því óvíst hve lengi menn geta ornað sér við fréttir af lækkunum. Og eru bókhaldshneykslin síðustu mánuðina til marks um veikleika hins frjálsa markaðar? Um það má deila eins og annað. Til dæmis segir Brian M. Carney í grein í The Wall Street Journal í vikunni að hneykslin séu allt eins lýsandi dæmi um mikinn styrkleika bandarísks efnahagslífs.
Í greininn segir m.a.: „Þessi hrina hneykslismála er ekki til marks um veikleika í stjórnun bandarískra fyrirtækja heldur þvert á móti. Það er full ástæða til að dást að þessu kerfi, ekki síst þegar haft er í huga hve hratt skemmdu eplin eru týnd úr kröfunni. Í Bandaríkjunum er illa reknum fyrirtækjum einfaldlega leyft að fara á hausinn, sem er til bóta fyrir efnahagslífð í heild. Í Evrópu og Japan standa stjórnmálamenn hins vegar í ströngu við að bjarga illa reknum stórfyrirtækjum á kostnað annarra.“
Það er margt til í þessu. Kapítalisminn eða frjáls markaður er ekki fullkominn. Hann er hins vegar skásta fyrirkomulag efnahagsmála sem við þekkjum. Hann er eina leiðin til að virkja hæfileika allra.