Hinn nýi Þjóðvaki hefur boðað þá stefnu að taka auknar aflaheimildir til hliðar og bjóða þær upp á vegum hins opinbera til tekjuöflunar fyrir ríkishítina. Það er út af fyrir sig ákveðin viðurkenning fyrir aflamarkskerfið að andstæðingar þess geri ráð fyrir að fiskistofnarnir séu að styrkjast og að óhætt sé að auka afla. En hvað þýðir þessi tillaga í raun? Aflahlutdeildarkerfið verður eyðilagt. Það verður ekki lengur hagur útgerðanna að fiskistofnarnir styrkist enda munu aflaheimildir þeirra ekki aukast um leið, eins og þær hafa gert hingað til. Í aflahlutdeildarkerfinu er útgerðin beintengd við ástand fiskistofnanna. Vaxi fiskistofnarnir aukast aflaheimildir. Ef viðbótaraflaheimildir eru teknar jafnharðan og settar á uppboð er slitið á þessa tengingu.
Vafalaust ímynda ýmsir sér að með uppboði ríkisins á veiðleyfum muni nýjum aðilum reynast auðveldar að komast í útgerð en nú er. Þetta er ólíklegt. Í dag má kaupa aflaheimildir á almennum markaði, bæði til eins árs og varanlegar heimildir. Verð á þeim er hátt fyrir nýjan útgerðarmann og mun einnig verða hátt fyrir hann á uppboði ríkisins. Ástæðan er sú að þeir sem einkum kaupa aflaheimildir eru að bæta við sig heimildum. Þeir hafa þegar fastan kostnað af útgerð og geta þess vegna borgað nær sama verð fyrir heimild til að veiða hvert kíló og fæst fyrir aflann kominn á land. Nýir útgerðarmenn eiga erfitt að keppa við þetta hvort sem aflaheimildin er boðin upp á vegum ríkisins eður ei.
Vef-Þjóðviljanum hefur borist nokkuð nýstárlegt bréf frá lesanda sem hvetur hægri menn, ekki síst frjálshyggjumenn, til andstöðu við aðild Íslands að NATO og varnarsamvinnunni við Bandaríkin.