Laugardagur 3. apríl 1999

93. tbl. 3. árg.

Ungir framsóknarmenn eru með sitt aprílgabb á heilli síðu í Morgunblaðinu hinn 1. apríl. Þar er Framsóknarflokknum líkt við Litlu gulu hænuna sem hafi bakað brauð ofan í þjóðina. Framsóknarflokkurinn lætur verkin tala og þjóðin nýtur uppskerunnar, segir í aprílgabbi SUF. Nú vill Vef-Þjóðviljinn meina að það séu ekki stjórnmálamenn sem baka brauðið heldur einstaklingar og fyrirtæki. Þegar stjórnmálamenn reyna að baka brauðið er voðinn vís. Framsóknarflokkurinn hefur í 80 ár verið þekktur fyrir slíkar tilraunir. Steingrímur Hermannsson fyrrverandi formaður flokksins sem var forsætisráðherra til ársins 1991 lagði sérstaka áherslu á að ríkið stundaði brauð- og kökugerð vítt og breitt um landið. Hann tók það sérstaklega fram að vestrænar hagstjórnaraðferðir ættu ekki við hér á landi.

Árið 1991 fékk þjóðin loks frí frá þessari framsóknarbrauðgerð eftir nær tuttugu ára nær samfellda stjórnarsetu flokksins. Þá var ýmsum sætabrauðshúsum sem flokkurinn hafði látið skattgreiðendur reka um árabil lokað. Þessir nammikofar flokksgæðinga Framsóknarflokksins voru ýmsir sjóðir og bankar ríkisins. Því verki er raunar ekki lokið enn. Enn á eftir að ljúka einkavæðingu ríkisbankanna. Þegar þjóðin hætti að fjármagna sætabrauðshúsin skapaðist svigrúm til að lækka skatta á fyrirtæki og svo síðar á einstaklinga. Vextir fóru einnig lækkandi þegar ríkið þurfti ekki lengur að taka lán fyrir brauðgerð Framsóknarflokksins. Þetta á vafalaust stóran þátt í því að hagvöxtur fór aftur á stað og hefur verið meiri hér undanfarin ár en í öðrum vestrænum ríkjum.

Í Vísbendingu 19. mars eru Aðrir sálmar um þá spillingu sem leiddi til afsagnar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins: „Það kom líklega fáum á óvart þegar upp komst um spillingu í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Stofnanir af þessu tagi bjóða spillingunni heim. Stjórnendur líta á sig sem ósnertanlega og hika ekki við að hygla sínum. Menn mega þó ekki láta þetta verða til þess að fordæma allt sem frá Evrópusambandinu kemur. Einn vandi þess er að það er orðið sem dvalarheimili aldraðra stjórnmálamanna og reynslan sýnir að stjórnmálamenn og peningar eru oft ekki góður kokteill. Lausnin felst í því að dreifa valdi og fela einkaaðilum sem felst verkefni.“