Þeir sem eiga leið í byggingavöruverslanir á þessum árstíma lenda í örtröð. Flestir landsmenn virðast vera í framkvæmdahugleiðingum og skunda í verslanir til að ná sér í efni og áhöld. Nú er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að menn bjargi sér sjálfir þegar viðhald og endurbætur eru annars vegar. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort óhófleg skattlagning veldur því að fleiri reyna fyrir sér sem iðnaðarmenn en hafa hæfileika til þess.
Hár tekjuskattur og hæsti virðisaukaskattur norðan Alpafjalla gera vinnu iðnaðarmanna afar dýra. Svo dýra að það borgar sig jafnvel að kaupa öll verkfæri sem til þarf og gera hlutina sjálfur. Það er því verulega freistandi að leggja hellurnar, smíða sólpallinn eða mála þakið sjálfur. Þá felst skattgreiðslan aðallega í ójafnri hellulögn, skökkum sólpalli og blettóttu þaki. Að ógleymdum bakverknum sem þeir fá sem rjúka í svona vinnu nokkrum sinnum á ævinni.
RÚV hefur eins og önnur opinber bákn þanist út, allt frá stofnun. Byrjunin var ein útvarpsstöð, þá sjónvarpsstöð, síðan önnur útvarpsstöð og loks nýjasta viðbótin, vefur RÚV á Netinu. Þessi nýjasta viðbót hefur svo auðvitað þanist út og er vefurinn nú orðinn umsvifamikill, en þó er ekki kunnugt um að RÚV hafi til þess heimild að reka þennan nýja fjölmiðil, ólíkt sérstökum heimildum sem það hefur til reksturs hinna þriggja. Nær væri að ríkið seldi RÚV en að það láti óátalið að stofnunin þenji út starfsemi sína.
Flutningar ríkissjónvarpsins af Laugavegi í Efstaleiti hafa áður verið gagnrýndir hér fyrir að vera yfirgengilega dýrir, en þeir munu kosta á bilinu 1-2 milljarða króna ef að líkum lætur. Eitt af því sem þeir sem til þekkja hafa talið gagnrýnivert við þessa flutninga er að þeir séu hreinlega ónauðsynlegir, þar sem tækniframfarir hafi gert það að verkum að öll tæki hafa skroppið saman og að fleira sé tekið upp á staðnum en færra í myndveri. Þessu til stuðnings má benda á að stjórnstöð útsendinga HM í knattspyrnu verður alla heimsmeistarakeppnina í einum bíl sjónvarpsins, þrátt fyrir að RÚV eigi tvö stór hús sem nota mætti. Ætli þetta geti ýtt við menntamálaráðherra að endurskoða ákvörðun sína um þennan dýra og óþarfa flutning?