280. tbl. 1. árg.
Ein galdraþulan sem sveitastjórnmenn hafa haft yfir við ólíklegustu tækifæri undanfarin ár er „færsla verkefna frá ríki til sveitarfélaga“. Þessi þula hefur orðið svo vinsæl að þingmenn hafa etið hana upp eftir sveitstjórnamönnum. Færsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga er nýjasta dæmið um að þulan hefur áhrif. En til hvers að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga? Hvaða máli skiptar það hvort ríkisvaldið sem rekur skólana heitir ríkissjóður eða bæjarsjóður? Í gær boðuðu grunnskólakennarar verkfall í lok mánaðarins og næstu vikurnar verða allir fréttatímar fullir af kleinuáti kennara og viðsemjenda þeirra í Karphúsinu. Allt er við það sama: Kennarar eru fúlir yfir kaupinu, foreldrar fúlir yfir eilífum kjaradeilum og verkföllum og nemendur fá sömu meðferð og áður, hvað sem líður „færslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga“.
Ef ríki og sveitarfélög hefðu hins vegar komið sér saman um að einkavæða skólana væru nýir eigendur þeirra, sem vafalaust væru kennarar í allmörgum tilvikum, sennilega uppteknir af öðru en kleinunum í Karphúsinu. Þeir væru að leita allar leiða til að gera rekstur skólanna betri, auka gæði kennslunnar og koma með nýjungar sem samkeppnisaðilarnir væru ekki með. Þeir væru uppteknir af því að gera skólana sína að góðum kosti í samkeppninni um nemendur. Hvers vegna má skólastarf ekki njóta þeirra kosta sem keppni á frjálsum markaði hefur í för með sér? Hvers vegna þarf að hneppa skólana í fjötra miðstýringar og ríkisreksturs sem hefur löngu gengið sér til húðar?
|