Vefþjóðviljinn 4. tbl. 20. árg.
„Heiðarleiki“ er meðal þess sem ýmsir segja áberandi í sínu fari. Annað sem oft má heyra fólk lýsa hjá sjálfu sér er „réttlætiskennd“. „Ég hef ríka réttlætiskennd“, heyrist stundum sagt.
„Réttlætiskenndin“ getur eflaust komið fram í mjög mörgu.
Hún birtist sjálfsagt oft í því að menn vilja að orð standi og samningar haldi. Að menn efni samninga sína umyrðalaust, borgi það sem um var samið, afhendi það sem þeir lofuðu að selja, og svo framvegis.
Hún birtist eflaust oft í því að mönnum finnst algerlega sjálfsagt að hver maður eigi þær eignir sem hann hefur löglega eignast, og að aðrir eigi ekki kröfu á að taka þær af honum.
Hún birtist líklega líka oft í því að menn vilja að fólk geri góðverk sín á eigin kostnað. Að menn rétti öðrum hjálparhönd án þess að krefjast þess að aðrir geri það líka. Sá afbragðsmaður, miskunnsami Samverjinn, gerði það sem allir ættu að gera, en hann gerði engar kröfur á hendur öðrum.
Réttlætiskenndin birtist líklega sjaldnar í því að menn krefjist þess að annað fólk komi til aðstoðar. „Mér rennur til rifja hversu illa Páll stendur. Ég krefst þess að þú Pétur gerir eitthvað í þessu. Þig munar ekkert um það.“
Það er til dæmis sjálfsagt að fólk efni til samskota með meðbræðrum í neyð. En það er ekki eins sjálfsagt að krefjast þess einfaldlega að ríkið komi og borgi brúsann.