Vefþjóðviljinn 39. tbl. 20. árg.
Það er merkilegt hversu einhæfa mynd íslenskir fjölmiðlamenn gefa af bandarískum stjórnmálum. Hún er einföld. Repúblikanar eru vondir. Þeir eru stríðsæsingamenn. Þeir eru fordómafullir. Þeir eru heimskir. Þeir þekkja ekki umheiminn. Og það sem verst er, þeir tala illa um demókrata.
Þegar demókratinn Obama barðist um forsetaembættið við repúblikanann McCain sýndi skoðanakönnun á Íslandi 98% stuðning við Obama en 2% við andstæðing hans. Það eru tölur eins og mætti búast við ef þeir kepptu Simon Wiesenthal og Goebbels.
Viðskiptablaðið fjallaði um áherslur íslenskra fjölmiðlamanna á þessu sviði í síðustu viku, í dálkinum Tý:
Nú þegar Trump er ekki lengur í hásætinu vestra hafa íslenskir kollegar Týs verið iðnir við að fræða landann um þann sem bar sigur úr býtum í Iowa, öldungadeildarþingmanninn Ted Cruz. Hann er sagður hinn mesti íhaldskurfur og fjölmiðlaneytendur minntir á að hann sé mótfallinn fóstureyðingum og sé ekki hrifinn af ólöglegum innflytjendum. Þá er hann byssumaður mikill. Á móti honum hafa menn svo stillt kollega hans úr þinginu, Marco Rubio, sem lenti í þriðja sæti í Iowa. Hann er sagður mun hófsamari og líklegri til að eiga möguleika í frambjóðanda demókrata, hvort sem það verður Hillary Clinton eða Bernie Sanders. Týr er hins vegar handviss um að þegar Rubio tekur fram úr þeim Cruz og Trump og verður á endanum valinn fulltrúi repúblikana muni takturinn í íslensku fjölmiðlafólki breytast. Þá verður talað um Rubio sem bókstafstrúaðan íhaldsmann sem hatar konur, innflytjendur og hvolpa.
Þessi spádómur er mjög sennilegur þótt sennilega verði helst gert út á meinta heimsku mannsins. Það er ekki vafi að íslenskir álitsgjafar verða jafn fyrirsjáanlegir í þessu máli og flestum öðrum. Um leið og Marco Rubio þykir eiga einhverja sigurmöguleika verður hann gjörsamlega ómögulegur frambjóðandi. Hann verður hinn allra versti maður og hans einu sigurmöguleikar munu felast í því að rógsherferð repúblikana á hendur demókrötum beri árangur. Fox News og allt það.
Íslenskir álitsgjafar munu hafa miklar fréttir af illmennsku frambjóðanda repúblikana. En þeir hafa aldrei heyrt um að frambjóðendur repúblikana hafi nokkurn tíma verið rægðir.
Hefur einhver heyrt íslenskan álitsgjafa hneykslast á því hvernig talað var um George W. Bush?
Nei, íslenskir álitsgjafar telja að um hann sé bara sagður sannleikurinn, eins og um aðra repúblikana. Þeir eru stríðsæsingamenn, fordómafullir, heimskir. Og það sem verst er, þeir eru alltaf að rægja demókrata.