Vefþjóðviljinn 38. tbl. 20. árg.
Það er sagt að áfengisfrumvarpið sé ómerkilegt mál og jafnvel sé verið eyða mikilvægum tíma alþingis til einskis. Það eru þó einkum fylgismenn ríkiseinokunarinnar sem halda til í ræðustól þingsins þegar málið kemst loks á dagskrá. Þeir vilja ekki að málinu sé lokið með atkvæðagreiðslu.
Hörður Ágústsson, kaupmaður í raftækjaversluninni Maclandi, skrifaði nýverið á Twitter um frumvarp um afnám á ríkiseinokunar á vínsölu að „í versta falli skiptir þetta engu máli. En hvað það er mikil áhersla lögð á að ná þessu í gegn er magnað.“
Kaupmaður á móti verslunarfrelsi er vissulega áhugavert fyrirbæri en á það ber að líta að þessi tiltekni kaupmaður telur sig jafnframt þurfa að hafa vit fyrir þeim samborgunum sínum sem vilja sjálfir ákveða hvernig þeir ferðast um Laugaveginn, gangandi, hjólandi eða akandi.
Kaupmaðurinn í Maclandi hefur sjálfur frelsi að selja raftæki og því er honum nokk sama um frelsi þess sem gæti hugsað sér að reka verslun með vín.
En frelsið til að selja raftæki hefur ekki alltaf verið sjálfgefið. Ríkið taldi um árabil að engum öðrum en því sjálfu væri óhætt að reka raftækjaverslanir og starfrækti Raftækjaeinkasölu ríkisins. Þá starfaði Viðtækjaverslun ríkisins frá 1930 til 1967 og hafði einkarétt á sölu útvarpstækja. Ætli menn hafi munað nokkuð um að fara í sérstaka verslun ríkisins eftir útvarpstækjum? Það er ekki eins og menn kaupi útvarpstæki í hverjum mánuði. „Í versta falli skiptir þetta engu máli,“ hefur sjálfsagt einhver sagt. Magnað hvað mikil áhersla er lögð á að afnema þessa einkokun.