Helgarsprokið 13. september 2015

Vefþjóðviljinn 256. tbl. 19. árg.

Hefndarklám er nú þegar refisvert. Hefði frumvarp þingmanna Bjartrar framtíðar um hefndarklám verið samþykkt á síðasta þingi hefðu refsingar við hefndarklámi verið gerðar vægari.
Hefndarklám er nú þegar refisvert. Hefði frumvarp þingmanna Bjartrar framtíðar um hefndarklám verið samþykkt á síðasta þingi hefðu refsingar við hefndarklámi verið gerðar vægari.

Líklega er sanngirni mikilvægasti eiginleiki farsæls fréttamanns. Þótt „hlutleysi“ hljómi kannski vel í þessu sambandi þá er í raun vandséð hvernig fréttamaður getur verið hlutlaus en um leið sinnt starfi sínu. Hann þarf alltaf að velja og hafna. Hann velur að segja frá einu máli en ekki öðru, tala við þennan en ekki hinn, spyrja um þetta en ekki hitt, leiðrétta þessa rangfærsluna en eltast ekki við hina. Sá sem er alveg „hlutlaus“ getur eiginlega ekki gert þetta. Lykilatriðið er að fréttamaðurinn sinni þessu hlutverki sínu af sanngirni og eigin óskum um niðurstöðu mála sem mest til hlés.

Fleiri eiginleikar en sanngirnin skipta máli í fari þeirra sem taka að sér að segja löndum sínum frá því helsta sem gerist í landinu og umheiminum. Fréttamaðurinn þarf að hafa víðtæka almenna þekkingu og þar að auki ýmsa sértæka þekkingu á þeim sviðum sem oft koma við sögu. Og þekkingin er ekki nægileg ef fréttamaðurinn er ónákvæmur. Hann þarf að gæta þess að fara rétt með staðreyndir, nota rétt hugtök en ekki röng og gæta þess að frétt hans verði til þess fallin að upplýsa hlustandann en ekki til þess að rugla hann. Þar skipta sanngirni, þekking og nákvæmni fréttamannsins miklu máli.

Á síðasta þingi lagði þingmaður Bjartrar framtíðar fram lagafrumvarp sem hún sagði ætlað til þess að gera „hefndarklám“ refsivert. Þetta var rækilega kynnt í Ríkisútvarpinu, bæði fréttatímum og umræðuþáttum. Þingkona Bjartrar framtíðar vill gera „hefndarklám“ refsivert, glumdi yfir hlustendum aftur og aftur.

Ekki tókst fréttamönnum að skilja þrátt fyrir margar fréttir og umfjöllun í þáttum, að „hefndarklám“ er nú þegar refsivert og hefur lengi verið. Og það sem meira er þá hefði samþykkt frumvarps þingmanna Bjartrar framtíðar orðið til þess að milda refsingar við „hefndarklámi“. En þetta skildu hvorki fréttamenn né þeir hjá Bjartri framtíð.

Frumvarp Bjartrar framtíðar sem hefði orðið til þess að milda refsingar við „hefndarklámi“ varð ekki að lögum á síðasta þingi. Þess vegna hefur Björt framtíð tilkynnt að frumvarpið verði flutt að nýju á þessu þingi. Og Ríkisútvarpið er þegar byrjað að kynna málið aftur.

 Á dögunum var fjallað í sjónvarpi um ungt fólk austan af landi og kvartanir foreldra yfir því að börnin fengju ekki að stunda tónlistarnám. Í ljós kom að deilan stóð var um hvort eitt sveitarfélag niðurgreiddi nám við tónlistarskóla í öðru sveitarfélagi. Það mun það ekki hafa viljað gera, en í fréttum var hins vegar talað um að nemandinn fengi ekki að halda áfram námi og yrði að flytja búferlum til að geta gert það, og svo framvegis. En hver hafði bannað nemandanum að halda áfram náminu? Þarna hefði auðvitað átt að nota nákvæmara orðalag. Eitt er að sveitarfélag vilji ekki niðurgreiða nám einhvers, en allt annað að honum sé bannað að stunda námið.