Vefþjóðviljinn 252. tbl. 19. árg.
Í þingumræðum gærkvöldsins hafði Guðmundur Steingrímsson, sem nýlega fékk sjálfur þá hugmynd að hætta sem formaður Bjartrar framtíðar, uppi fögur orð um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefði orðið að taka mjög erfiðar ákvarðanir, en þær erfiðu ákvarðanir nýttust hins vegar mjög vel á mörgum sviðum nú.
Eftir þetta fór Guðmundur að tala um skref sem hann vill stíga í lýðræðisumbótum, því auðvitað er mjög mikilvægt að umbæta lýðræðið á Íslandi.
En hvernig fer þetta tvennt saman hjá Guðmundi?
Rökræðunnar vegna má samþykkja að ríkisstjórn Jóhönnu hafi tekið margar erfiðar ákvarðanir. Það hafi verið ákvarðanir sem hafi verið umdeildar og óvinsælar á þeim tíma, en sem þingmenn og ráðherrar stjórnarinnar hafi þá talið að yrðu til heilla til lengri tíma litið. Með sama hætti má segja, rökræðunnar vegna, að þessar ákvarðanir hafi allar reynst mikil heillaskref og til marks um snilligáfu Jóhönnu og félaga. Þau hafi séð lengra en aðrir hvað ætti að gera.
En hvernig hefði farið, ef „lýðræðisumbæturnar“ hefðu þá verið komnar? Ef lítið brot kjósenda hefði getað knúið fram „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um þau frumvörp og þingsályktanir sem það er óánægt með hverju sinni? Hvað hefði þá orðið um erfiðu ákvarðanirnar sem Guðmundur telur að hafi sannað gildi sitt síðar?
Hvaða erfiðu ákvarðanir verða teknar, eftir allar „lýðræðisumbæturnar“? Hvaða stefna verður mörkuð og hvaða áætlanir gerðar til lengri tíma? Hvernig hefðu ákvarðanir verið teknar eftir bankahrunið ef hægt hefði verið að knýja fram „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um þær allar?
Við venjulegar aðstæður má gera ráð fyrir að ríkisstjórn njóti stuðnings 30 til 60% kjósenda á hverjum tíma, eftir því hvernig vindar blása. Margir eru hófsamir í afstöðu sinni, hvorki heitir með né heitir á móti, en líklega má ætla að á hverjum tíma séu um 20 til 40% kjósenda mjög hörð gegn ríkisstjórninni í öllum málum. Í einstökum málum bætist svo við andstæðingahópinn talsverður fjöldi sem er á móti stjórninni í einmitt því máli, þótt hann sé almennt ekkert sérstaklega á móti henni.
Við þær aðstæður verður ákaflega auðvelt að safna undirskriftum og safna svo liði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hagsmunahópar eiga sérstaklega auðvelt með að æsa upp andstöðu við mál, og slíkt mun auðvitað aukast enn frá því sem nú er, ef þannig verður formlega hægt að hindra að vilji Alþingis nái fram að ganga.
Það er ósköp auðvelt að tala fyrir „lýðræðisumbótum“, því allri gagnrýni má svara með innantómu tali um að menn eigi að „treysta þjóðinni“ og að „allt vald komi frá þjóðinni“. En staðreyndin er sú að það er þó þessi sama „þjóð“ sem kýs Alþingi. Á Alþingi þarf líka að vera hægt að taka erfiðar ákvarðanir, sem ekki njóta víðtæks stuðnings í upphafi. Kjósendur geta svo skipt um alþingismenn við lok kjörtímabilsins ef þeim líkar ekki hvernig þeir hafa farið með það umboð sem þeim var veitt.
Ef menn vilja hins vegar draga úr valdi þingmanna og ráðherra yfir fólki þá ættu þeir að setja fram vandaðar tillögur um minnkandi ríkisafskipti, afnám boða og banna, lækkun skatta og gjalda, aukið samningafrelsi og almennt athafnafrelsi hins almenna manns. Þannig fengi fólk meira vald yfir eigin lífi, en þyrfti síður að beygja sig undir gildismat annarra. Það væru raunverulegar lýðræðisbætur, en á þeim hafa fáir stjórnmálamenn mikinn áhuga.