Vefþjóðviljinn 331. tbl. 18. árg.
Líkt og Oddgeir Ágúst Ottesen hagfræðingur rekur í grein í Morgunblaðinu í dag hafa rangfærslur og villandi upplýsingar einkennt kynningu ríkisstjórnarinnar á „leiðréttingunni“.
Því hefur til að mynda verið haldið að fólki að 80 þúsund milljóna bótagreiðslurnar úr stórskuldugum ríkissjóði gagnist fyrst og fremst þeim tekjulægri í þjóðfélaginu.
Oddgeir Ágúst færir fyrir því ágæt rök og leggur fram um það gögn að „leiðréttingin“ feli að meðaltali í sér tilfærslu á fjármunum frá tekjulágum til tekjuhárra.
Oddgeir Ágúst segir til að stjórnmálamennirnir hafi einfaldlega endurskilgreint hvað séu lágar tekjur til að renna stoðum undir þá fullyrðingu að „leiðréttingin“ renni að mestu leyti í vasa láglaunafólks.
Þá bendir hann á að þeir 10% tekjuhæstu fái um 25% „leiðréttingarinnar“ í sinn hlut. Og að hluti af þeim sem taldir séu í láglaunahópnum í áróðri ríkisstjórnarinnar séu tekjulágir af því að þeir séu með tekjur erlendis og geti því allt eins verið tekjuháir.