Laugardagur 25. júní 2005

176. tbl. 9. árg.

Í

The Wall Street Journal birti í vikunni þetta línurit frá IPCC og telur að það lýsi nokkuð vel hugmyndum vísindamanna um sveiflur í hitastigi jarðar.

kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudag var sagt frá því að varaforseti Alþjóðanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC, telji enga hættu stafa af loftslagsbreytingum á jörðinni og að engin sannanleg tengsl séu milli breytinganna og lifnaðarhátta mannkyns. Ennfremur er haft eftir varaforsetanum, Juri Israel, að ekki hafi með neinum rannsóknum tekist að sýna fram á með afgerandi hætti að aukinn útblástur koltvísýrings af mannavöldum tengist hækkuðu hitastigi á jörðinni. Haft var eftir varaforsetanum að þrátt fyrir að magn koltvísýrings í andrúmslofti hafi hækkað um þriðjung frá upphafi iðnbyltingar þá hafi meðalhiti jarðar aðeins hækkað um 0,6 gráður. Hitasveiflur hafi einnig verið á þessu tímabili sem á engan hátt sé hægt að útskýra með gróðurhúsaáhrifum.

Heimsendaspár dynja æði oft á landsmönnum í fréttatímum ríkisins og þess vegna var þessi frétt ágæt tilbreyting. Stjórnendur Spegils Ríkisútvarpsins virðast hins vegar hafa verið annarrar skoðunar, því að í gær sáu þeir ástæðu til að reyna að hrekja þessi sjónarmið varaforsetans. Það var gert með því að bera þau undir einn þeirra sem þeir gátu treyst að væri ósammála, en það var verkefnisstjóri loftslagsverkefnis Landverndar. Svo vill til að verkefnisstjórinn hefur óneitanlega nokkra hagsmuni af því að almenningur trúi því að ástæða sé til að grípa til aðgerða til að reyna að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Þar sem Spegillinn reynir eftir megni í viðtalinu að gera úr skoðunum varaforsetans ótrúverðug minnihlutasjónarmið er ástæða til að benda á að ekki eru allir sammála því mati Spegilsins. The Wall Street Journal fjallaði til að mynda um loftslagsmál í vikunni og telur blaðið málstað þeirra sem reyna að tengja bruna jarðefnaeldsneytis, sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda, við hækkun hitastigs vera enn veikari en áður hafi verið. Blaðið segir jörðina virðast vera að fara í gegnum tímabil hækkandi hita, en hve lengi það muni vara og hve hár hitinn muni verða viti enginn. Vísað er í grein frá 2003 þar sem teknar séu saman 200 rannsóknir á hitastigi og af þeim megi sjá að vísindamenn telji að hitastig jarðar hafi sveiflast mikið síðast liðin þúsund ár. Blaðið birtir línurit, sem sýnt er hér að ofan, sem það telur að sýni nokkuð vel þær hugmyndir sem vísindamenn hafa um sveiflur í hitastigi jarðar, en þetta línurit birtist í fyrstu skýrslu IPCC árið 1990. Línuritið sýni að hækkun hitans nú sé hvorki einstök né sérlega mikil.

The Wall Street Journal nefnir fleiri ástæður fyrir því að ástæða sé til að vantreysta heimsendaspám um hækkun hita. Ein þeirra er að tölvulíkönin sem þessar spár byggi á gefi til kynna að hitinn í töluverðri hæð yfir jörðu  hefði átt að hækka verulega á síðustu áratugum. Gögn frá veðurloftbelgjum og gervihnöttum staðfesti þessa hækkun hitans hins vegar ekki. Hækkunin hefur mælst á jörðu niðri og færð hafa verið margvísleg rök fyrir því að þær mælingar séu ekki eins áreiðanlegar og hinar sem gerðar eru í mikilli hæð. Önnur kenning sem blaðið nefnir gengur út á að Suðurskautið sé að bráðna og þar með muni yfirborð sjávar hækka. Nýleg gögn sýni hins vegar að íshellan sé að þykkna og hitastig á Suðurskautinu fari víðast hvar lækkandi.

Þá segir blaðið að æ fleiri vísindamenn telji að breytingar á virkni sólar, sem kemur fram í sólblettum, hafi mikil áhrif á loftslag jarðar. Og skyldi engan undra.