Vefþjóðviljinn 281. tbl. 18. árg.
Ríkisútvarpið ræddi í gær við Garðar Cortes skólastjóra Söngskólans. Hann taldi mikla hættu á ferðum, raunar „alveg skelfilega hluti“. Hann var ekki að tala um útbreiðslu ebólaveirunnar heldur yfirvofandi verkfall tónlistarskólakennara, sem á að hefjast eftir tvær vikur.
„Það stefnir í alveg skelfilega hluti ef verður af verkfalli. Sumir skólar standa svo illa að þeir koma varla til með að ráða við það“, sagði Garðar svo ljóst er að ástandið er mjög alvarlegt. Alveg skelfilegir hlutir geta gerst ef tónlistarskólakennarar fara í verkfall.
Garðar var sem betur fer ekki spurður hvað honum fyndist um verkfallsboðun skurðlækna á sjúkrahúsum landsins.
Í ljósi þess hversu skelfilegir hlutir vofa yfir landsmönnum, ef verður af verkfalli tónlistarskólakennara, er ekki undarlegt að menn hafi gripið til örþrifaráða. Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá því í sömu frétt að um morguninn hefðu tónlistarskólakennarar komið saman fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara „til að afhenda samninganefndunum ályktun og syngja fyrir þær Maístjörnuna.“
En hvað gerðist? Samninganefndirnar komu bara ekki út til að hlusta á sönginn. Það er ekki undarlegt að Garðar hafi orðið reiður: „Þeir mættu ekki. Þeir vildu alls ekki koma fram og heilsa upp á okkur. Mér finnst þetta mjög mikill dónaskapur og það var barnalegt og tilgangslaust. Það var engin pólitík í því, það var ekkert í því sem gat hjálpað eða skerpt eða útskýrt viðræður.“
En þeir sem ekki komu út af fundi til að hlusta á Maístjörnuna misstu af miklu, ef marka má Garðar: „Það var ótrúleg upplifun að syngja Maístjörnuna, því fólkið söng hana ekki bara, það virkilega tjáði sig í þessum textum, það var mjög mikil upplifun og áhrifaríkt.“
Já, það er nú meiri barnaskapurinn að fara ekki út til að hlusta á tónlistarskólakennara tjá sig með því að syngja Maístjörnuna. Það hefði að sjálfsögðu sett kjaraviðræðurnar í nýtt ljós. Það er skýlaus krafa að þegar leikfimikennarar safnast næst saman fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara muni samninganefndirnar sýna þann þroska að gera hlé á fundi og fara út og fylgjast með þegar leikfimikennararnir leggja áherslu á málstað sinn með því að hoppa yfir kubb.