Vefþjóðviljinn 43. tbl. 18. árg.
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins var rætt um gullgrafarastemmningu sem nú væri ríkjandi við móttöku erlendra ferðamanna. Var þar mikið rætt við Edward H. Huijbens, forstöðumann Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.
Edward þessi er ekki aðeins forstöðumaður mjög mikilvægrar stofnunar, Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, heldur einnig varaþingmaður Vinstrigrænna. Eins og svo oft þegar vinstrimenn eru teknir tali í Efstaleiti berst talið fljótt að því hvernig „Við“ ætlum að hafa hlutina.
Flest í mannlegu atferli á nefnilega að skipuleggja, og það eftir langar umræður fagmanna.
Hvar ætlum Við að byggja upp? Hvernig viljum Við haga gjaldtöku? Hvaða stefnu ætlum Við að móta?
En hvaða Við eru það sem oft er vitnað til þegar fólk í umræðuþáttum vill skipuleggja mál annarra? Ætla einhver Við að fara að byggja upp ferðaþjónustu einhvers staðar? Hver eru þessi Við, sem brýnt er að móti sér stefnu í ferðamálum?
Er það ekki bara þannig að eitthvert fólk fer og hefur rekstur, stóran eða smáan, og reynir svo að skapa sér viðskipti? Stundum verða bólur og margir ætla að verða ríkir eins og gengur. Vilja menn hafa opinbera kontórista að „móta heildarstefnu“ á öllum sviðum?
Það er ótrúlega algengt að alls kyns umræður fari fram án þess að spurt sé hvaða rétt annað fólk hafi til þess að skipta sér af á því sviði. Ótrúlega mörgum virðist nægja að þeir sjálfir hafi skoðun á því hvað væri nú best að aðrir gerðu, og þá megi þeir byrja að skipta sér af.
Eitt skýrasta dæmið um þessa tilhneigingu er opinbert bann við því að eigendur veitingastaða leyfi eigin gestum að reykja á staðnum. Nær allir, sem spurðir eru um það mál opinberlega, virðast svara eftir því hvort þeir sjálfir kunna að meta slíkar reykingar eða ekki. Það er alger undantekning ef nokkur maður heyrist nefna að hann ráði þessu bara ekki. Eigandi staðarins hljóti að setja húsreglurnar.
En það er eitt af því sem fæst með eilífum samtölum vinstrimanna um það hvernig „Við“ ætlum að hafa hina og þessa hluti. Fólk venst því að fleiri og fleiri mál annarra, komi því sjálfu í raun við.