Vefþjóðviljinn 261. tbl. 17. árg.
Mikið verk bíður nýrra stjórnvalda í landinu, nú þegar liðnir eru rúmir þrír mánuðir frá því þau tóku við af vinstristjórninni. Ef vel ætti að vera myndu ráðherrar og aðrir stjórnarþingmenn vinna hörðum höndum og óhræddir að því að afnema sem allra mest af vondum verkum vinstristjórnarinnar, og þar er af mjög miklu að taka. En fyrstu mánuðirnir veita kannski ekki mikla bjartsýni í þessum efnum. Hingað til hefur fátt verið gert og iðulega hopað við fyrstu gagnrýnisraddir.
Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins er einn þeirra sem skilja að nauðsynlegt er að tekið verði fast á málum. Í hausthefti tímaritsins Þjóðmála brýnir hann þingmenn og ráðherra til dáða. Og hann brýnir einnig almenna skattgreiðendur til dáða, því mikilvægt er að þeir láti í sér heyra, ekki síst ef stjórnmálamennirnir eru linir.
Í grein sinni, sem hann nefnir „Hagræðing dugar ekki – uppskurður er nauðsynlegur“ fjallar Óli Björn um ríkisfjármálin og verkefni hagræðingarhóps sem ríkisstjórnin hefur skipað undir formennsku Ásmundar Einars Daðasonar þingmanns Framsóknarflokksins. Nefnir Óli Björn ótal atriði sem taka verður á þegar ríkisfjármálin verða endurskipulögð og verða þau ekki rakin hér. En vitna má hér til almennari orða hans þar sem segir:
Eitt er að leggja fram skynsamlegar tillögur um sparnað, hagræðingu og uppskurð í rekstri ríkisins og annað er að tryggja framgang þeirra. Útgjaldasinnar allra flokka munu snúast til varnar. Margar tillögur og hugmyndir sem hagræðingarnefndin mun leggja fram, eiga (kannski eðli máls) eftir að verða umdeildar og jafnvel óvinsælar. Helsta von útgjaldasinna liggur í því að nýta sér óánægju og gagnrýni – spila á sérhagsmuni og hópa sem telja hagsmunum sínum ógnað. Það skiptir því miklu að hagræðingarnefndin nái almenningi – kjósendum, skattgreiðendum – á sitt band. Með bandalagi við almenning getur hagræðingarnefndin tryggt pólitískt bakland og stuðning við róttækar hugmyndir.
Það er mikilvægt að almennir skattgreiðendur taki þátt í baráttunni fyrir niðurskurði opinberra útgjalda og lækkun skatta. Allir vita að næg verður baráttan frá hinni hliðinni. Og sú hlið hefur fær auðvitað aukið sjálfstraust ef ráðherrar og stjórnarþingmenn sýna af sér sannfæringarleysi og lítinn baráttuhug.