Vefþjóðviljinn 321. tbl. 17. árg.
Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með fréttamönnum og álitsgjöfum þegar þeir tala um stjórnmál og Konur. Sérstaklega þegar þeir tala um Konur og Sjálfstæðisflokkinn.
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í gær varð niðurstaðan sú að af sjö efstu eru fjórar konur og þrír karlmenn. Svo vildi hins vegar til að karlarnir þrír náðu þremur efstu sætunum en konurnar náðu sætum fjögur til sjö. Fyrst þannig fór, leggja fréttamenn og álitsgjafar áherslu á þrjú efstu sætin.
Í sjónvarpsþætti í Ríkissjónvarpinu í morgun sagði Heiða Kristín Helgadóttir, „stjórnarformaður Bjartrar framtíðar“, að það væri „skelfilegt“ að karlar yrðu í þremur efstu sætum hjá Sjálfstæðisflokknum. Sú niðurstaða er þó lýðræðisleg útkoma í mörg þúsund manna prófkjöri.
Í síðustu borgarstjórnarkosningum bauð fram „Besti flokkurinn“, og þar var ekki valið á lista í prófkjöri heldur á lokuðum fundi nokkurra manna. Þar var niðurstaðan sú að í efsta sæti var valinn Jón Gnarr Kristinsson, í annað sæti Einar Örn Benediktsson og í þriðja sæti Óttarr Proppé. Af sjö efstu hjá „Besta flokknum“ voru fimm karlmenn en tvær konur. Kosningastjóri flokksins var Heiða Kristín Helgadóttir, síðar aðstoðarmaður borgarstjóra.
Ef horft er á „Besta flokkinn“ árið 2010 og Sjálfstæðisflokkinn samkvæmt prófkjörinu í gær, þá eru sömu kynjahlutföll í þremur efstu sætunum. Af sjö efstu sætunum er Sjálfstæðisflokkurinn með fjórar konur en „Besti flokkurinn“ tvær.
Ekki er vitað hvort Heiðu Kristínu finnst þetta einnig skelfilegt hjá „Besta flokknum“, því hún var ekki spurð í þættinum.
Sá munur er svo auðvitað á flokkunum að hjá Sjálfstæðisflokknum er einfaldlega byggt á lýðræðislegri útkomu í prófkjöri, þar sem enginn getur vitað niðurstöðuna fyrirfram. Hjá „Besta flokknum“ var listinn bara ákveðinn bak við lokaðar dyr, enda er „Besti flokkurinn“ fulltrúi nýrra tíma, lýðræðis og gegnsæis, gegn flokksræði og foringjaræði.
Raunar heldur skelfingin áfram, því þingmenn Bjartrar framtíðar eru sex. Þar af eru fjórir karlmenn. Menn ættu að forðast að segja Heiðu Kristínu frá því.
Hvenær ætli komi að því að fólk hætti þessari kynjatalningu? Það á ekki að meta einstaklinga eftir kynferði þeirra. Öll kynjatalning er í raun ósk um að farið verði að gera upp á milli fólks eftir kynferði þess. Í hvert sinn sem fréttamenn og álitsgjafar byrja á söngnum um kynjahlutföll, eru þeir að þrýsta á að byrjað verði að mismuna mönnum raunverulega eftir kyni.
En fréttamenn gera þá stundum undantekningar á kynjaáhyggjum sínum. Skemmtilegt dæmi var vorið 2006. Þá hélt Samfylkingin í Reykjavík prófkjör og meðal þátttakenda var þáverandi borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Hún sóttist auðvitað eftir fyrsta sæti. Það gerðu hins vegar einnig tveir karlmenn, Dagur B. Eggertsson og Stefán Jón Hafstein, sem verið hafði í fyrsta sæti fjórum árum áður.
Svo fór að Dagur B. Eggertsson náði efsta sætinu en ekki Steinunn borgarstjóri. Ríkisútvarpið hafði engar áhyggjur af því að þarna færi kona halloka. Sama kvöld og konan Steinunn borgarstjóri missti af efsta sætinu til karlmannsins Dags B. Eggertssonar sagði Ríkissjónvarpið ekki eitt orð í þá veru að nú væri „sótt að konu“. Ekki orð um að Samfylkingin „treysti ekki konum“. En í sama fréttatíma sagði Ríkissjónvarpið þrívegis að konur væru „ekki nema“ svo og svo hátt hlutfall efstu manna í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði, sem fram fór daginn áður.