Vefþjóðviljinn 62. tbl. 17. árg.

Ef marka má stjórnmálaumræður þá virtust margir búast við því að fylgi Sjálfstæðisflokksins ykist við landsfund flokksins.
Við því var hins vegar tæplega að búast. Þó tókst fundurinn vel frá sjónarhóli sjálfstæðismanna. Hann var afar fjölmennur og að því leyti algerlega ósambærilegur fundum annarra flokka – að ekki sé talað um nýju „lýðræðisframboðin“ sem ekki þurfa að halda neina fundi heldur lúta bara stjórn eigenda sinna sem prófkjörslaust velja sjálfa sig í öll efstu sætin. „Persónukjörið“ sem þessir flokkar snakka mest um virðist einkum felast í því að menn velja eigin persónu á framboðslista.
Á fundinum varð breyting á forystu flokksins við það að Hanna Birna Kristjánsdóttir var með yfirburðum kjörin varaformaður. Með kjöri hennar nú og í prófkjöri í Reykjavík fyrr í vetur, hefur forysta Sjálfstæðisflokksins breikkað, þótt ekki átti allir sig á því strax. Þá var á fundinum samþykkt skýr stefna í mörgum mikilvægum málaflokkum.
Ekkert af þessu skiptir hins vegar máli til skamms tíma, þótt það myndi vafalaust gera það í öðrum löndum. Á Íslandi er Sjálfstæðisflokkurinn alltaf í vörn eftir landsfundi sína. Álitsgjafar og fréttamenn fara alltaf í það á fullum krafti, strax á meðan á landsfundi Sjálfstæðisflokksins stendur, að finna smámál til að blása upp, helst í röngu samhengi, og tala svo hver við annan um það hve sjálfstæðismenn hafi nú skotið sig í fótinn. Þetta ná þeir að ræða fram og til baka með svo mikilli hneykslun að jafnvel hluti sjálfstæðismanna fer að trúa því að þeir hafi nú enn einu sinni skotið sig í fótinn. Aðrir trúa kenningunni svo auðvitað enn frekar þegar þeir skynja óróleika sjálfstæðismanna yfir þessum samfelldu feilskotum.
Sjálfstæðisflokkurinn er yfirleitt í vörn en ekki sókn eftir landsfundi sína. Því meiri vörn sem fundurinn var í raun betur heppnaður.
Eitt smáatriðið sem nú er blásið upp eins og stórmál sem skyggja skal á allt annað, er að flokkurinn ályktar gegn rekstri áróðursskrifstofu Evrópusambandsins á Íslandi. Reynt er að mála þetta sem hið versta ofstæki og Evrópusinnar spara ekki stóryrðin og vitna óspart hver í annars æsing.
Hér er auðvitað ekki stórt mál á ferðinni en auðvitað er tilvalið að slá því upp, ef menn vilja þyrla upp ryki til að aðalatriði landsfundarins sjáist síður. Það er nefnilega auðvelt að láta eins og þarna séu ofstækismenn að reyna að loka fyrir látlausa menningarkynningu, svona eins og Goethe Institut. Aðalatriði málsins eru þó önnur, þó þau komi sjaldnast fram í leikrænni hneykslun íslenskra Evrópusinna.
Í 41. grein Vínarsáttmálans er sérstaklega kveðið á um algera skyldu þeirra sem reka sendiskrifstofu, til að „skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis“ þar sem skrifstofan starfar. Allt sendiráðsstarf er bundið við ákvæði hins alþjóðlega Vínarsáttmála. Sendiherra Evrópusambandsins hefur farið mikinn á vegum Evrópustofu, þó hún sé strangt til tekið ekki hluti sendiráðsins heldur rekin hér á vegum stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins.
En er svona skrifstofa einhver „afskipti af innanríkismálum“? Er þetta ekki menningarstarf og hlutlaus miðlun upplýsinga? Er það ekki ritskoðun, kúgun, þöggun og ofstæki að gera athugasemdir við þessa meinlausu starfsemi? Hvað hafa menn á móti upplýsingum?
Núverandi stjórnvöld hafa þá stefnu að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Til þess þurfa þau að sigra í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þessar tilraunir eru eitt allra alvarlegasta mál íslenskrar stjórnmálaumræðu, með fullri virðingu fyrir þremur tilraunum sömu stjórnvalda til að koma Icesave-ánauðinni um háls skattgreiðenda. Þegar þessi stefna var tilkynnt ákvað Evrópusambandið að hefja hér mikla „kynningarstarfsemi“. Opnuð er skrifstofa, bæklingum er dreift, sendimenn eru sendir um allt land að halda „kynningarfundi“. Allt er þetta gert til að hafa áhrif á afstöðu landsmanna, þeirra sömu og þurfa að greiða atkvæði um inngöngu landsins í þetta sama Evrópusamband ef núverandi stjórnvöldum á að takast ætlunarverkið.
Auðvitað er slíkur erindrekstur, sem kostar verulegt fé á íslenskan mælikvarða þótt það sé lítið í augum manna í Brussel, afskipti af íslenskum innanríkismálum. Þetta er starfsemi sem er ætlað að hafa áhrif á það hvernig Íslendingar greiða atkvæði í kosningum sem hugsanlega fara fram á Íslandi innan fárra ára.
Það eru afskipti af innanríksmálum og þau eru auðvitað bönnuð. Þetta eru einfaldlega staðreyndir málsins, þótt þær séu sjaldan nefndar í æsingagreinum hneykslaðra Evrópusambandssinna. Þeir og álitsgjafarnir vita auðvitað af þessum staðreyndum. Þeir vita hins vegar líka að margir munu ekki hugsa út í þær, þegar þeir heyra að þessi vondi öfgaflokkur vilji banna hlutlausa menningarkynningu og upplýsingagjöf. Hvað hafa menn eiginlega á móti upplýsingum?
Það var ekki við því að búast að fylgi Sjálfstæðisflokksins ykist strax eftir landsfund. Fyrstu dagar og vikur eftir landsfundi fara oftast í það að reyna að hjálpa fólki til að sjá í gegnum rykið sem álitsgjafar og fjölmiðlamenn þyrla alltaf upp, til að aðalatriðin hverfi.
Hvað ætli menn segðu ef Bandaríkjavinir á þingi hefðu náð að knýja fram samþykkt um að Ísland sækti um að gerast 51. ríki Bandaríkjanna, og skömmu síðar yrði opnuð í Reykjavík gríðarleg „kynningarskrifstofa Bandaríkjanna“ þar sem milljónum og aftur milljónum dollara yrði varið til að veita „upplýsingar“ um það hve allt væri nú dásamlegt í vesturheimi? Ætli það þætti ofstæki að telja slíkt vera afskipti af íslenskum innanríkismálum?