Vefþjóðviljinn 63. tbl. 17. árg.
Það virðist augljóst að ýmsir stjórnarþingmenn, að ógleymdum nokkrum þingmönnum utan hins formlega stjórnarliðs, líta fremur á sig sem byltingarmenn en hefðbundna þjóðkjörna þingmenn. Áherslan á að fá „Nýja stjórnarskrá“ skýrist varla af neinu öðru. Það er engin raunveruleg þörf á stjórnarskrárbreytingum. Stjórnarskráin hefur reynst vel og fráleitt að skipta henni út fyrir grautinn sem nú er lagður til í stað hennar.
Enda er krafan um stjórnarskrárskipti yfirleitt ekki studd við nein haldbær rök. Upphrópanir og frasar eru þar algengari. Einhver öfl vilja fá „nýtt Ísland“ – því það gamla góða, þar sem lífskjör hafa verið með þeim bestu í heimi og borgaraleg réttindi með þeim mestu á byggðu bóli, er auðvitað ekki nógu gott fyrir þetta fólk. Og til að innsigla þetta „Nýja Ísland“ þarf endilega að fá nýja stjórnarskrá. Baráttan virðist snúast um tákn. Byltingarmenn vilja alltaf nýja stjórnarskrá. Að ógleymdu hatrinu sem margir úr þessum hópi leggja á þá sem nú vilja verja stjórnarskrá lýðveldisins. Margir úr þessum hópi þrá að það varðmenn stjórnarskrárinnar „tapi“. Fyrst Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki kasta stjórnarskránni á haugana, þá verðum við að koma henni þangað.
Einnig er augljóst af umræðunni að margir skilja alls ekki stjórnarskrár. Hvers vegna gilda stjórnarskrár umfram almenn lög? Það er vegna þess að þær eiga að geyma grundvallarreglur sem gilda skuli í landinu óháð dægursveiflum og tíðaranda. Ef tíðarandinn ætti að ráða, þá þyrfti ekki að hafa neina stjórnarskrá. Þess vegna er alls staðar lykilatriði að torsótt er að breyta stjórnarskrám. Þetta skilja þeir ekki sem vilja nú breyta stjórnarskránni þannig að ekki þurfi lengur að samþykkja breytinguna á tveimur þingum með kosningum á milli.
Ætli næsta skref þessa fólks verði ekki að afnema stjórnarskrá með öllu? Er ekki bara hægt að hafa mánaðarlegar skoðanakannanir um það hvað „þjóðin“ vill hverju sinni? Er það ekki lýðræðislegast og bjartasta framtíðin?
En er ekki nægilegur þröskuldur að þjóðaratkvæði þurfi um breytinguna? Nei. Og alveg örugglega ekki nema gert sé að skilyrði að meirihluti atkvæðisbærra manna samþykki breytinguna í kosningunni.
Nú er mikið æpt um að meirihluti þjóðarinnar hafi í kosningu samþykkt stjórnarskrártillögu nefndarinnar sem stjórnarmeirihlutinn á alþingi valdi einn og kallaði „stjórnlagaráð“. Það er alrangt. Eftir mikla kynningu, kostnað og fyrirhöfn tókst að fá þriðjung kjósenda til að mæta og lýsa stuðningi við framtakið. Það er sama hlutfall og lét sig hafa það að mæta og kjósa í ógildri kosningu til stjórnlagaþings. Það er hinn raunverulegi stuðningur við tillögurnar. Þriðjungur kjósenda, ekki „þjóðin“.
En hvernig sem á allt þetta er litið, þá blasir við að tíminn er runninn út fyrir stjórnarskrárbreytingar þetta vorið, hvort sem er margar eða „afmarkaðar“. Enda má spyrja hvað kalli á að slíkar breytingar verði einmitt gerðar í vor? Ekki neitt – nema að stuðningsmenn stjórnarskrártillagnanna telji víst að landsmenn muni ekki aftur gera þau mistök að kjósa byltingarmenn í lýðræðislegum kosningum.